Nemendur Laugarnesskóla söfnuðu fötum fyrir Hvíta Rússland

19. des. 2011

Hjálparþurfi skjólstæðingar Rauða krossins í Hvíta Rússlandi munu njóta góðs af fatasöfnun nemenda í Laugarnesskóla sem afhentu Rauða krossinum veglega fatagjöf í liðinni viku. Nemendur í umhverfisnefnd skólans áttu frumkvæði að söfnuninni og stýrðu henni nú á aðventunni og var þátttaka góð.

Örn Ragnarsson, verkefnisstjóri fatasöfnunar Rauða krossins, segir fötin verða flokkuð og send í fatagámi til Hvíta Rússlands í janúar 2012 þar sem þeim verði úthlutað til bágstaddra.

Á höfuðborgarsvæðinu starfa um 200 sjálfboðaliðar á ári launalaust við söfnun, flokkun og sölu fatnaðarins. Þeir skiluðu á síðasta ári um 19.000 vinnustundum og reikna má með því að þetta framlag sjálfboðaliðanna sé ekki undir 30 milljóna króna virði.

Fatasöfnun Rauða krossins er orðin eitt mikilvægasta fjáröflunarverkefnið fyrir Hjálparsjóð Rauða kross Íslands. Afrakstur ársins 2010 var 60 milljónir króna sem greiddar voru í Hjálparsjóð, sem einkum er notaður til alþjóðlegs hjálparstarfs. Þá úthlutaði Rauði krossinn fatnaði til 2.000 einstaklinga á Íslandi.