Hlýja frá Íslandi í hvítrússneska kuldann

Þóri Guðmundsson

24. feb. 2010

Kuldinn byrjar að nísta um leið og við stígum út úr Lada bílnum, sem hlýtur að vera frá Sovéttímanum. Í fanginu er hlýja frá Íslandi.

Ég er í fylgd með tveimur konum úr Minsk-deild hvítrússneska Rauða krossins í Baravliani, litlu þorpi nokkuð fyrir utan borgina. Við höfum stöðvað bílinn hjá timburhjalli. Úti við eru krakkar að leik í snjónum.

Inni í hrörlegu húsinu hittum við Galínu Shestakovic. Hún er þriggja barna einstæð móðir sem býr með móður sinni. Inni er gengið beint inn í eldhúsið og innan af því er svefnherbergið með tveimur rúmum og barnarúmi yngstu dótturinnar.

Vika litla, rúmlega eins árs, er uppi í rúmi mömmu sinnar, stúrin enda komin klukkustund framyfir hefðbundinn miðdegislúr klukkan tvö.

Galína ljómar þegar hún fær ungbarnapakka í hendurnar frá Rauða krossi Íslands. í pakkanum eru peysa, húfa, sokkar, vetlingar og annar fatnaður sem sjálfboðaliðar Rauða krossins á Íslandi hafa prjónað. Þarna eru líka handklæði, teppi og annað sem kemur sér vel í hvítrússneska vetrinum.

Elena Rolovets með ungbarnapakkann frá Íslandi. Hún var ein tíu fjölskyldna sem komu í hús Rauða krossins til að taka á móti pökkunum.
Galina með Viku litlu og Denis. Í neðra vinstra horni má sjá ungbarnapakkann frá Rauða krossi Íslands.
Í litlu þorpi á landsbyggðinni. Olga Bunkaitenie er fjögurra barna móðir, býr í timburhjalli með eiginmanni og fjórum börnum, 2, 4, 7, og 11 ára. Litla stúlkan sá Rauða kross bílinn fyrir utan og heimtaði að fá að sjá hann betur. Olga klæddi hana að sjálfsögðu í nýfengna prjónahúfu frá Íslandi.

Lífsbaráttan er erfið hér úti á sléttunni og ekki bætir kreppan úr skák, sem hefur skollið á þessu fyrrverandi Sovétlýðveldi tíu milljóna manna eins og svo mörgum öðrum. Hvar sem við höfum farið hefur fólk kvartað undan háu verði á barnafötum.

Í gáminum frá Íslandi voru tvö þúsund ungbarnapakkar, fatnaður á eldri börn, teppi og skór. Konurnar frá Rauða krossi Hvíta Rússlands sýna mér pappíra yfir allt sem kom í gámnum. Galína kvittar fyrir móttöku á pökkunum. Pappírarnir fara allir í skýrslu sem send verður bæði yfirvöldum í landinu og Rauða krossi Íslands. Allt þarf að vera pottþétt.

Vika litla er meðal tvö þúsund barna sem fá fallegu fötin sem sjálfboðaliðar á Íslandi, mestmegnis konur, hafa prjónað og safnað saman á undanförnum mánuðum.

Úthlutanir sem við fylgdumst með fóru líka fram í húsakynnum Rauða krossins í Minsk. Þar tóku tíu fjölskyldur á móti pökkunum og trúðu vart sínum eigin augum þegar þær opnuðu pakkana. Eitt er að fá fatnað gefins en annað að fá ný prjónaföt sem augljóslega hafa verið gerð af vandvirkni og ástúð.

Í mörgum tilvikum var um að ræða einstæðar mæður en þarna voru líka báðir foreldrar með börn sín. Ung stúlka með stúlkubarn hafði orð fyrir hópnum og þakkaði kærlega fyrir.

Á starfssvæði Rauða kross deildarinnar eru 24 hverfi. Fatnaðinum frá Íslandi verður dreift í öllum hverfunum, bæði til barnaheimila og til fjölskyldna sem eru á skrá yfir fólk sem þarfnast aðstoðar.

Næst lá ferð okkar á heimili fyrir munaðarlaus og yfirgefin börn. Börnin þar hafa í flestum tilvikum verið tekin af foreldrum sínum, sem hafa ekki getað sinnt þeim, oftast vegna ofdrykkju.

Ala Starsjenko forstöðukona heimilisins sýnir okkur herbergi barnanna. Heimilið er gert fyrir 32 börn en þau eru 70. Til viðbótar eru yngri börn á barnaspítala í grenndinni.

Ala á varla orð þegar hún opnar einn ungbarnapakkann og tekur út vandaðar flíkurnar eina af annarri. Hún lítur á okkur með tár í augunum og þakkar innilega fyrir. Það er ekki auðvelt fyrir yfirmann á stofnun að þiggja mannúðaraðstoð frá útlöndum – en hún gerir það fyrir börnin.