Ungbarnaföt óskast í neyðarpakka til Hvíta-Rússlands

26. okt. 2009

Rauða krossi Íslands barst nýlega neyðarbeiðni frá Rauða krossinum í Hvíta-Rússlandi þar sem óskað var eftir 2.500 ungbarnapökkum. Í pökkunum eru föt fyrir börn á aldrinum 0-12 mánaða; peysur, teppi, sokkar, húfur, buxur, handklæði, samfellur, taubleyjur, bleyjubuxur og treyjur. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar munu leggja sitt af mörkum og pakka fötum sem hafa borist deildinni og sjálfboðaliðarnir prjónað síðustu mánuði.

Til að geta pakkað sem flestum pökkum óskar deildin eftir ungbarnafötum fyrir 0-12 mánaða. Hægt er að koma með föt í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í Hamraborg 11 en hún er opin virka daga frá kl. 10-16. Fötin þurfa að berast deildinni fyrir 25. nóvember.

Pökkunum verður dreift til heimila fyrir munaðarlaus börn og til stofnana fyrir veik og fötluð ungabörn. Einnig verður farið með pakka til fátækra fjölskyldna með nýfædd börn í afskekktum þorpum. Sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins í Hvíta-Rússlandi munu sjá um dreifingu fatapakkanna.

Í Hvíta-Rússlandi búa tíu milljónir manna og þar eru miklar vetrarhörkur. Sökum fátæktar og kulda geta aðstæður því verið mjög erfiðar á heimilum fyrir munaðarlaus eða fötluð börn og á heimilum tekjulágra fjölskyldna.

Frekari upplýsingar um þetta framtak má fá með því að hringja í síma 554 6626.

Þeir sem vilja gerast félagsmenn í Kópavogsdeild geta haft samband í síma 554 6626 eða skráð sig hér.