Neyðarbeiðni frá Hvíta-Rússlandi

15. okt. 2009

Á dögunum barst Rauða krossi Íslands neyðarbeiðni frá Rauða krossinum í Hvíta-Rússlandi um 2.500 ungbarnapakka. Hafnarfjarðardeild biðlar því til allra sem geta tekið þátt í að prjóna eða sauma peysur, húfur, vettling og buxur fyrir börn 1 árs og yngri. Tilvalið er að sauma uppúr gömlum flísteppum sem fólk er hætt að nota eða örðu sem fellur til.

Afrakstrinum má skila til Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins, Strandgötu 24 (gengið inn frá Fjarðargötu) fyrir lok nóvember. Við munum sjá um að pakka fötunum og koma þeim til Rauða kross félaga okkar í Hvíta-Rússlandi.

Fram kemur í máli Oglu Lukashkovu hjá Rauða krossi Hvíta-Rússlands að pökkunum verði dreift til heimila fyrir munaðarlaus börn og til stofnana fyrir veik og fötluð ungabörn. Einnig verður farið með pakka til fátækra fjölskylna með nýfædd börn í afskekktum þorpum. Sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins í Hvíta-Rússlandi mun sjá um dreifingu fatapakkanna.

Í Hvíta-Rússlandi búa tíu milljónir manna og þar eru vetur mjög harðir. Frostið fer niður í 20 gráður.  Sökum fátæktar og vetrahörku geta aðstæður því verið mjög erfiðar á heimilum fyrir munaðarlaus eða fötluð börn og á heimilum tekjulágra fjölskyldna.

Hafnarfjarðardeild vonar að Hafnfirðingar taki vel í þessa söfnun og leggi sitt af mörkum til að aðstoða fólk í neyð í Hvíta-Rússlandi.

Allar nánari upplýsingar um verkefnið má fá í síma 565-1222