Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar útbúa fatapakka til ungbarna í neyð

15. mar. 2012

Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag hittust í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi  í gær og pökkuðu ungbarnafötum. Fatapakkarnir verða síðan sendir til barna og fjölskyldna í neyð í Hvíta-Rússlandi. Fjöldi sjálfboðaliða úr verkefninu mætti til að taka höndum saman og pakkaði hvorki meira né minna en 252 pökkum á tæpum tveimur klukkutímum. Í pakkana fara prjónaðar peysur, húfur, sokkar, teppi og bleyjubuxur ásamt samfellum, treyjum, buxum, handklæðum og taubleyjum. Hópurinn hefur sent frá sér alls um 680 pakka frá því á síðasta ári.

Sjálfboðaliðarnir munu hittast aftur í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi í lok mánaðarins þegar hið mánaðarlega prjónakaffi verður en það er haldið síðasta miðvikudaginn í hverjum mánuði. Þar gefst sjálfboðaliðunum tækifæri til að hittast, deila prjóna- og saumauppskriftum og eiga ánægjulega stund saman yfir kaffi og meðlæti.

Þeir sem vilja taka þátt í verkefninu eða gefa samfellur, boli, buxur eða garn geta haft samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is.