Hjálpargögnum pakkað í gám til Hvíta Rússlands

3. des. 2009

Eftir helgi sendir Rauði krossinn gám til Hvíta Rússlands með tvö þúsund ungbarnapökkum, sem sjálfboðaliðar Rauða krossins um allt land hafa verið að útbúa undanfarnar vikur. Sjálfboðaliðar setja þessa pakka, flísteppi og skó í gáminn í dag kl. 11 í fatasöfnun Rauða krossins að Skútuvogi 1.

Rauði krossinn í Hvíta Rússlandi dreifir hjálpargögnunum til munaðarleysingjahæla og til barnmargra, fátækra fjölskyldna, einkum til sveita. Hluti teppanna verður settur í vöruhús til dreifingar til þolenda hamfara af ýmsu tagi.

Vetur eru harðir í Hvíta Rússlandi og þar býr fjöldi fjölskyldna í örbirgð. Húshitunarkostnaður hefur hækkað verulega, laun hafa lækkað og félagsleg vandamál aukist.

Í ungbarnapökkunum eru sokkar, húfur, treflar og peysur sem hundruð sjálfboðaliða hafa prjónað undanfarið og koma sér vel í þeim fimbulkulda sem er í Hvíta Rússlandi um vetur. Auk þess eru í pökkunum samfestingar, bleyjur og handklæði og annað sem að gagni kemur.