Krabbameinsleit Rauða krossins í nágrenni Tsérnóbýl kjarnorkuversins bjargar mannslífum.

30. maí 2012

Sjö rannsóknarstofur á hjólum á vegum Rauða krossins leituðu að krabbameini hjá meira en 115.000 manns sem búa í kringum Tsérnóbýl kjarnorkuverið á árinu 2011. Um helmingur þeirra reyndist vera með óeðlilega starfsemi í skjaldkirtli. 186 manns voru með krabbamein í skjaldkirtli sem má rekja til geislamengunar frá Tsérnóbýl og fékk fólkið í kjölfarið nauðsynlega meðferð. Stuðningur Rauða krossins á Íslandi við þetta verkefni er því enn að bjarga mannslífum meira en aldarfjórðungi eftir kjarnorkuslysið í Tsérnóbýl árið 1986.


Mikið magn geislavirkra efna slapp út í umhverfið í kringum Tsérnóbýl kjarnorkuverið og höfðu þau áhrif á meira en átta milljónir manna í Úkraínu, Hvíta-Rússlandi og Rússlandi. Allt frá árinu 1990 hefur Rauði krossinn aðstoðað fólk á áhrifasvæði kjarnorkuslyssins með heilbrigðisþjónustu og bæði félagslegum og sálrænum stuðningi. Aðaláherslan er á að leita að skjaldkirtilskrabbameini hjá fólki sem var yngra en 40 ára þegar slysið varð og búa á svæðum með geislamengun.

„Við höfum hjálpað fjölda fólks í þessum þremur löndum og líka þeim sem búa á afskekktum svæðum án allrar heilbrigðisþjónustu.“ Segir Nikolay Nagorny, sem stýrir verkefninu fyrir alþjóða Rauða krossinn. Læknar ferðast um svæðið á sjö sérútbúnum bílum sem útbúnir eru með tækjum til að skanna skjaldkirtil fólks, sem margt var á barnsaldri þegar slysið varð. Geislavirkt joð sem börn urðu fyrir á þeim tíma getur orðið þess valdandi að krabbamein myndast í skjaldkirtli 20-30 árum síðar.

Nikolay Haiduk, 26 ára, er einn þeirra fjölmörgu sem greinst hafa með skjaldkirtilskrabbamein og er enn á lífi vegna þessa verkefnis. Nikolay fæddist í júlí árið 1985 í þorpi í suðurhluta Hvíta-Rússlands sem varð fyrir mikilli geislamengun frá Tsérnóbýl þegar hann var aðeins tíu mánaða. Íbúarnir fengu enga viðvörun um slysið og höfðu enga hugmynd um hvernig þau áttu að varast geislun.

Þegar Nikolay var tólf ára, í október 1997, kom Rauða kross-rannsóknarstöð á hjólum heim í þorpið hans og greindist hann þá með æxli í skjaldkirtli. Nikolay var fluttur til höfuðborgarinnar Minsk þar sem kom í ljós að æxlið var illkynja og krabbameinið virtist vera að dreifa sér í aðra hluta líkama hans. Skjaldkirtill hans var fjarlægður með skurðaðgerð og æ síðan hefur hann tekið L-thyroxin töflur daglega sem eiga að koma í veg fyrir að krabbameinið nái sér á strik að nýju. Læknar á vegum Rauða krossins fylgjast einnig reglulega með heilsu hans.

Nikolay útskrifaðist úr menntaskóla árið 2005 og starfar nú hjá byggingafyrirtæki og lifir eðlilegu lífi. Hann er mjög þakklátur læknum Rauða krossins fyrir að hafa greint krabbameinið áður en það náði að dreifa sér og bjarga þannig lífi hans.

Svæðið sem varð fyrir geislamengun er stórt og því á enn eftir að leita að krabbameini í skjaldkirtli hjá fjölda manns auk þess sem slíka leit þarf að framkvæma reglulega hjá íbúum á áhrifasvæði kjarnorkuslyssins. Rauði krossinn á Íslandi mun því stoltur styðja við þetta verkefni áfram og þakkar öllum velunnurum félagsins sem gera félaginu kleift að sinna fjölbreyttum mannúðarverkefnum hér heima og erlendis.

Lesa má meira um þetta þarfa verkefni Rauða krossins hér.

Teymi heilbrigðisstarfsmanna ferðast um svæðið í kringum Tsérnóbýl og heimsækir þorp og bæi til að greina hvort fólk sé með krabbamein eða sé í hættu á að fá krabbamein vegna geislamengunar. Hundruðir íbúa bíða þá jafnan í röð á heilsugæslustöðinni til að fá greiningu.
Nikolay Haiduk, 26 ára, var greindur með krabbamein í skjaldkirtli sem var fjarlægt með uppskurði. Hann hefur fengið hormónameðferð og þarf að taka lyfið L-thyroxin daglega.