Athvarf fyrir geðfatlaða og barátta gegn mansali í Hvíta-Rússlandi

5. nóv. 2012

Samskonar athvarfi fyrir geðfatlaða og Vin í Reykjavík verður komið á fót í Hvíta-Rússlandi á næsta ári með stuðningi Rauða krossins á Íslandi og Utanríkisráðuneytisins samkvæmt þriggja ára samstarfsyfirlýsingu sem undirrituð var í dag.

Í kjölfarið á því að tryggð voru fjárframlög til reksturs Vinjar hér í Reykjavík er það Rauða krossinum mikið gleðiefni að fá fjármagn til að flytja út þá þekkingu sem myndast hefur í Vin og öðrum athvörfum fyrir geðfatlaða og nota til uppbyggingar fyrir geðfatlaða í Hvíta-Rússlandi í samstarfi við Rauða krossinn þar í landi

Úrræði fyrir fólk með geðsjúkdóma eru á miklu frumstigi í Hvíta-Rússlandi og fordómar miklir. Vitað er um 50 þúsund einstaklinga með geðsjúkdóma í landinu og eru um 5% þeirra inni á geðdeildum. Af hinum 95% eru mjög margir sem hafa verið yfirgefnir af ættingjum og/eða eiga við mikla félagslega einangrun að stríða.

Meginmarkmið með athvarfinu í Hvíta-Rússlandi er að aðstoða fólk með geðsjúkdóma til að lifa innihaldsríku og sjálfstæðu lífi, að efla geðheilbrigði og að draga úr fordómum með þjónustu, fræðslu og málsvarastarfi.

Athvörf eins og Vin víðar í Austur-Evrópu?
Athvarfið verður í Moskovskiy í Minsk þar sem geðfatlaðir geta komið og átt samskipti við jafningja sína og orðið öflugri og virkari í samfélaginu. Áhersla verður lögð á félagsstarf líkt og gert er í Vin og iðjuþjálfun s.s. í handverki, ræktun o.fl.

Gert er ráð fyrir því að minnst 40 manns muni sækja athvarfið reglulega auk þess sem minnst 300 manns með geðsjúkdóma sem enn eru í meðferð muni sækja einhverja þjónustu þar eða njóta góðs af heimsóknaþjónustu Rauða krossins. Þá fá aðstandendur geðfatlaðra fræðslu og nokkur þúsund manns úr nærsamfélaginu fá upplýsingar um geðsjúkdóma og réttindi geðsjúkra.

Fulltrúar hvítrússneska Rauða krossins hafa kynnt sér verkefni Rauða krossins á Íslandi með geðfötluðum, meðal annars í Vin, og telja Íslendinga hafa þekkingu og reynslu sem geti nýst til að auka lífsgæði fólks með geðsjúkdóma í Hvíta-Rússlandi. Samstarf á þessu sviði er tilraunaverkefni sem miklar vonir eru bundnar við að geti nýst víðar í Hvíta-Rússlandi sem og Austur-Evrópu.

Vinjar verkefnið í Hvíta-Rússlandi er til þriggja ára og kostar 20 milljónir ísl.kr. árlega. Af þeirri upphæð koma 14 milljónir frá Utanríkisráðuneytinu en 6 milljónir frá Rauða krossinum á Íslandi.

Meiri kraftur í baráttu gegn mansali
Þá verður stuðningi við baráttu Rauða krossins gegn mansali í Hvíta-Rússlandi haldið áfram og hann útvíkkaður til fleiri héraða í landinu. Frá árinu 2010 hefur þessi aðstoð falist í því að kenna ungu fólki í Gómel héraði að forðast að verða mansali að bráð auk þess sem fórnarlömb mansals sem komast aftur heim fá aðstoð við að byggja upp líf sitt á ný.

Nú verða slík verkefni einnig hafin í Minsk og Vitebsk héruðum og munu þau fórnarlömb mansals sem komist hafa aftur heim fá hlutverk við að kenna öðrum ungmennum að þekkja hvernig snörur eru lagðar fyrir þau af þessum þrælasölum nútímans.

Hvíta-Rússland er upprunastöð fyrir fórnarlömb mansals og eins er fólk flutt þar í gegn. Allt að 800.000 manns er "saknað" í landinu og er stór hluti þess fólks talinn vera í kynlífsánauð og nauðungarvinnu í verksmiðjum í nálægum löndum.

Verkefnið er til þriggja ára og er árlegur kostnaður af því 13 milljónir króna. Utanríkisráðuneytið leggur árlega til 9,1 milljón og Rauði krossinn á Íslandi 3,9 milljónir.

Formlegt samstarf Rauða krossins og utanríkisráðuneytisins
Samstarfsyfirlýsingin sem undirrituð var í dag skilgreinir verkefni sem utanríkisráðuneytið og Rauða krossinn á Íslandi hyggjast vinna að sameiginlega næstu þrjú árin en m.a. er nú stefnt að gerð rammasamnings um stuðning stjórnvalda við alþjóðlegt hjálparstarf Rauða krossins, áframhaldandi samstarf sem miðar að útbreiðslu mannúðarlaga og gagnkvæmri upplýsingagjöf um mannúðarmál.