Rauði krossinn opnar athvarf fyrir fólk með geðraskanir í Minsk

10. okt. 2013

Rauði krossinn í Hvíta-Rússlandi opnaði í dag, á alþjóðadegi geðheilbrigðis, athvarf fyrir fólk með geðraskanir.  Starfsemi þess er byggð að fyrirmynd Vinjar og annarra athvarfa Rauða krossins hér á landi, og verður rekið með stuðningi Rauða krossins á Íslandi og utanríkisráðuneytis til næstu þriggja ára.

Með þessu verkefni er verið að flytja út þekkingu sem myndast hefur í athvörfum Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir, en 20 ár eru liðin frá því Vin, fyrsta athvarfið á Íslandi, tók til starfa. Þetta er fyrsta athvarf sinnar tegundar í Hvíta-Rússlandi og eru miklar vonir bundnar við að það verði til að bæta aðstæður fólks með geðraskanir í landinu.

Sendinefnd frá Rauða krossinum í Hvíta-Rússlandi kom til Íslands síðastliðið vor til að kynna sér starfsemi athvarfanna hérlendis og annarra úrræða. Viktor Kolbanov, framkvæmdastjóri Rauða krossins í Hvíta-Rússlandi, sagði við opnunina í dag að Rauði krossinn hefði lengi haft hug á að aðstoða fólk með geðraskanir, en því miður skort til þess bæði faglega þekkingu og fjármagn.

„Þessi hópur hefur ekki fengið mikla athygli, en á mjög erfitt uppdráttar í hvítrússnesku samfélagi. Það var því eins og himnasending að komast í samstarf við Rauða krossinn á Íslandi sem hefur bæði þekkinguna og reynsluna. Mikilsvert framlag íslenska utanríkisráðuneytisins gerði það svo að verkum að hægt var að hefjast handa strax,“ sagði Kolbanov.

Nína Helgadóttir, verkefnisstjóri Rauða krossins á Íslandi fyrir athvarfið í Hvíta-Rússlandi var viðstödd opnunina.  Hún sagði það dýrmætt fyrir Rauða krossinn að geta deilt reynslu sinni og skjólstæðinga félagsins af starfinu við að breyta viðhorfum til fólks með geðraskanir.

„Við á Íslandi munum örugglega einnig læra af þessu samstarfi. Ég óska ykkur alls hins besta á þessari vegferð sem verður strembin á köflum en líka mjög gefandi,“ sagði Nína.

Nína afhenti við opnunina gjafir frá vinaathvörfunum á Íslandi, Vin og Læk, tvær myndir sem gestir þar máluðu, þeir Guðmundur Björgvinsson málari og gestur  i Vin, og Smári Smith málari og gestur a Læk.

Vitað er um 50 þúsund einstaklinga með geðsjúkdóma í Hvíta-Rússlandi og eru um 5% þeirra inni á geðdeildum. Af hinum 95% eru mjög margir sem hafa verið yfirgefnir af fjölskyldu og eiga við mikla félagslega einangrun að stríða. Markmið athvarfsins er einmitt að rjúfa félagslega einangrun og draga úr endurinnlögnum á geðdeildir, líkt og reynslan hefur sýnt hér á landi.