Rauði krossinn berst gegn þrælasölu í Hvíta-Rússlandi

18. okt. 2013

Rauði krossinn á Íslandi, með stuðningi utanríkisráðuneytis, hefur síðastliðin þrjú ár barist gegn þrælasölu í Hvíta-Rússlandi. Talið er að fórnarlömb mansals þar séu yfir 1.000 á ári.  Rauði krossinn vill vekja athygli á þessum vanda á alþjóðadegi mansals, sem haldinn er 18. október ár hvert.  

Samkvæmt nýrri skýrslu frá Evrópuþinginu eru um 880,000 manns hnepptir í nútíma þrælahald í Evrópu. Þetta hræðilega þrælahald þar sem fólk gengur kaupum og sölum, er rekið af skipulögðum glæpasamtökum og veltir hundruð milljarða á hverju ári.

Íbúar Hvíta-Rússlands eru í sérstakri hættu þar sem lífsskilyrði eru oft nöpur og horfur slæmar. Þar freistast ungt fólk til að láta ginnast af gylliboðum. Konur eru seldar til kynlífsánauðar, verkafólk er haldið í þrælavinnu og börnum er smyglað yfir landamæri í misjöfnum tilgangi eða þröngvað í kynlífsiðnaðinn.

Stundum eru fórnalömbin send nauðug, en oftast er fólk tælt til að yfirgefa erfiðar aðstæður með von um betra líf annars staðar. Gylliboð á netinu eru nú algengasti mátinn til að nálgast fórnarlömbin.

Rauði krossinn hefur náð góðum árangri með verkefninu sem hófst í héraðinu Gomel, en hefur nú verið  fært út til Vitebsk héraðs og höfuðborgarinnar Minsk. Markmið verkefnisins er að berjast gegn mansali og aðstoða fórnarlömb sem losna úr ánauðinni við að aðlagast þjóðfélaginu á ný og gera þeim kleift að koma undir sig fótunum þrátt fyrir fordóma og dómhörku samfélagsins.
 
Ekki síður mikilvægur þáttur eru forvarnir þar sem sjálfboðaliðar sjá til þess að ungmenni og aðstandendur séu betur upplýst um hættur vegna mansals til að koma í veg fyrir að berskjaldaðir einstaklingar gleypi við gylliboðum sem geta leitt til ánauðar.

Ungmenni eru frædd um hættuna á mansali með margvíslegum aðferðum. Fjölmiðlar eru hvattir til að fjalla um málið, hringborðsumræður haldnar, efnt til vitundarvakningar í skólum, veggspjöldum dreift og margvíslegar uppákomur nýttar til að ná til ungs fólks sem er í mestri hættu.

Alls tóku um 1000 sjálfboðaliðar þátt í verkefninu í Gomel, og náðu þau til mun stærri markhóps en áætlað var í upphafi. Beinan stuðning fengu 128 fórnarlömb ánauðar, um 10.000 unglingar og ungmenni tóku þátt í fræðsluerindum og verkefnum um hættur mansals, og um 52.000 manns fengu fræðslu og upplýsingar um nútíma þrælahald.