Fatapakkar frá Rauða krossinum eins og að fá ástríka ömmu í heimsókn

23. jan. 2014

Nína Helgadóttir verkefnisstjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi heimsótti nýverið Rauða krossinn í Hvíta-Rússlandi. Þar hitti hún skjólstæðinga Rauða krossins sem njóta góðs af fatasendingum frá sjálfboðaliðum á Íslandi. Nína deilir hér reynslu sinni í máli og myndum.

„Fatapakkarnir frá Íslandi eru svo fullir af kærleik. Að opna þá er eins og að fá ástríka ömmu í heimsókn sem hefur prjónað fallegar flíkur á barnabörnin sín“. Þetta sagði Aksana Pisareva þegar við heimsóttum hana í byrjun vetrar í litlu blokkaríbúðina í Vitebsk í Hvíta Rússlandi, þar sem hún býr með börnunum sínum tveimur Pasha, 11 ára og Sonju, 9 ára.

Um 450 sjálfboðaliðar Rauða krossins á Íslandi vinna að verkefninu Föt sem framlag sem eiga veg og vanda að fatapökkunum sem Aksana er að tala um.

Sjálfboðaliðarnir útbúa staðlaða ungbarna- og barnapakka með hlýjum ullarflíkum, teppum og öðrum fatnaði. Um 26 prjóna- og saumahópar eru að störfum um allt land við að framleiða í pakkana, auk þess sem valin eru falleg og góð barna- og unglingaföt sem gefin eru í fatagáma Rauða krossins.

Aksana sér um þrif í blokkinni og fær því frítt húsnæði en launin rétt duga fyrir rafmagni, kyndingu og mat handa börnunum. Börnin eru oft bæði lasin og lyfin kosta sitt. Það er ansi hráslagalegt úti en ekki orðið nógu kalt til þess að kyndingin í skólanum sé gangsett. Þau hafa því setið í köldum skólastofum síðustu daga og eru orðin veik.

„Og ef þau fengju ekki hlýju fötin frá Íslandi kæmust þau enn sjaldnar í skólann,” segir Aksana.

Það er þó létt yfir fjölskyldunni og hún reynir að gera það besta úr því sem þau hafa.

„Ég hef það alls ekki verst,” bætir Aksana við. „Ég hef vinnu og húsnæði og þó krakkarnir mínir séu oft lasnir þá eru þau ekki fötluð og geta stundað lærdóminn og leikið sér”. 

Sonja sýnir okkur kettina tvo Basya og Kasya og lætur þá leika ýmsar listir fyrir okkur. Þann síðarnefnda tóku þau að sér eftir slys, hann vantar einn fót en hefur náð sér að öðru leyti og gæti greinilega ekki átt betra heimili.

Pasha er flinkur teiknari og hefur kannski orðið fyrir áhrifum frá frægasta syni Vitebsk en málarinn Marc Chagall ólst einmitt upp í héraðinu og myndefni hans mjög lituð áhrifum frá æskuárunum. Pasha hefur fengið eitthvað af litum úr sendingu frá Íslandi. Hann er þó næstum búinn að nota þá upp til agna og við vonumst til að geta sent honum fleiri liti með næsta gámi. Fjölskylda Aksönu er öll búsett í Rússlandi, í órafjarlægð og á nóg með sig. Það er því kærkomið að fá pakkana frá Íslandi.
Í annarri íbúð hittum við Valentinu Nikolevnu. Hún býr þar með geðfötluðum syni sínum sem er meira og minna rúmfastur þannig að Valentina kemst ekki mikið að heiman og getur ekki lengur sinnt vinnu utan heimilis.

„Það er frábært að fá pakkana frá Rauða krossinum á Íslandi, það eru svo góðar og vandaðar flíkur í þeim. Svo er ekki minna um vert að fá sjálfboðaliða Rauða krossins hér í heimsókn til að spjalla því ég og sonur minn erum orðin svo einangruð. Það er hægt að tala um allt við það fólk, líka vandamálin og það hjálpar mikið.”

Það eru enn ríkjandi miklir fordómar í garð geðfatlaðra í Hvíta-Rússlandi. Síðastliðið haust opnaði Rauði krossinn athvarf fyrir fólk með geðraskanir í höfuðborginni Minsk að fyrirmynd athvarfa Rauða krossins á Íslandi, og eru miklar vonir bundnar við að með verkefninu verði hægt að breyta viðhorfi til geðfatlaðra og bæta stöðu þeirra í samfélaginu.

Aksana og Valentina voru meðal þeirra tæplega 3000 einstaklinga í Vitebsk og Mogilev sem fengu föt og skólavörur frá Rauða krossinum á síðasta ári. Þrír fjórðu skjólstæðinganna eru barnmargar fátækar fjölskyldur en einnig er dreift fötum til fatlaðra, heimilislausra og fangelsa á svæðinu.

Gámur með tæpum tíu tonnum af fatnaði frá Rauða krossinum á Íslandi var sendur í síðustu viku til Hvíta-Rússlands til dreifingar þar. Rauði krossinn sendir að jafnaði út tvo fatagáma á ári í samstarfi við systurfélag sitt í Hvíta-Rússlandi sem sér um að koma fatnaðinum til fátækra barnafjölskyldna og annarra skjólstæðinga. Áætlað er að næsti gámur fari til Hvíta-Rússlands í júlí.

[Mynd 1]
Aksana með börnun sínum Sonju 9 ára og Pasha 11 ára.
 
[Mynd 2]
Kettir heimilisins leika listir sínar með Sonju.
 
[Mynd 3]
Pasha er flinkur teiknari og hefur fengið liti frá Rauða krossinum en þeir eru nú uppurnir.
 
[Mynd 4]
Nína Helgadóttir verkefnisstjóri Rauða krossins á Íslandi ásamt Valentinu Nikolevnu sem nýtur góðs af fatasendingunum.