• Hvitarussland

Tíu tonn frá Íslandi

2. okt. 2014

Starfsfólk Rauða krossins í Hvíta-Rússlandi lauk í mars 2014 við að dreifa fatnaðinum frá Íslandi en hann var sendur héðan í september árinu áður. Alls voru tíu tonn af fatnaði í gámnum sem sendur var í þetta sinn til Gomel í Hvíta-Rússlandi. Fötunum var dreift til þurfandi fólks í Gomel-héraði sem er í suð-austurhluta landsins, nálægt landamærum við Rússland og Úkraínu.

Þakkir til sjálfboðaliða á Íslandi
Starfsfólkið, sem sá um að koma fatnaðinum til skila, fékk miklar þakkir fyrir. Margir báðu um að komið væri á framfæri þökkum til sjálfboðaliða Rauða krossins á Íslandi.

Meðal þeirra eru hjón að nafni Demidovy sem eiga fimm börn sem eru eins, tveggja, fjögurra, sex og átta ára. Móðirin er í fæðingarorlofi en faðirinn vinnur sem byggingaverkamaður. Laun hans eru lág, sérstaklega yfir vetrarmánuðina.

Hjón að nafni Kuzkovy báðu einnig fyrir þakkir til Rauða kross fólks á Íslandi. Hjónin sjá fyrir átta börnum, þar af þremur fósturbörnum.

Faðirinn er með fötlun og á erfitt með gang en hann reynir að sjá fjölkyldunni farborða með ýmiss konar smáverkefnum sem hann getur unnið heima fyrir. Á heimilinu er einnig amman sem er 83 ára og þarf mikla umönnun.

Þakkarbréf frá ömmu

Einnig barst þakkarbréf til Rauða krossins þar sem segir:

„Ég er amma Pavels Khoma og ég vil þakka fyrir fötin sem við fengum. Pavel er með krabbamein í heila og heilsa hans er mjög slæm. Hann getur nánast aldrei farið út fyrir hússins dyr og hann þarf oft að leggjast inn á sjúkrahús.

Við höfum aldrei áður fengið aðstoð. Ég er mjög þakklát deildarstjóra Rauða kross deildarinnar í Svetlogorsk fyrir að veita okkur þessa aðstoð. Einnig er ég þakklát Rauða krossinum á Íslandi.

Fötin voru mjög fín og mikill stuðningur fyrir okkur. Ég þakka ykkur enn og aftur og ég hneigi mig af virðingu fyrir ykkur.“