Vinnur að upplýsingatækni í Hvíta-Rússlandi

15. jan. 2015

Sigurður Jónsson, kerfisfræðingur og ráðgjafi á upplýsingatæknisviði Rauða krossins er mættur til starfa í Minsk í Hvíta-Rússlandi.

Sigurður mun vinna með landsfélagi hvítrússneska Rauða krossins að því að bæta upplýsingatækni, endurnýja tækjabúnað og efla þekkingu sem snýr að neyðarvörnum. Með því má auðvelda starfsmönnum og sjálfboðaliðum Rauða krossins í Hvíta-Rússlandi að skiptast á upplýsingum og gögnum og eiga samskipti sín á milli.

Rauði krossinn á Íslandi hefur stutt við upplýsingatækniverkefni í þremur landsfélögum á undanförnum árum. Er það hluti af uppbyggingu í neyðarvörnum hjá viðkomandi Rauða kross landsfélögum. Sigurður hefur áður veitt ráðgjöf í sambærilegum verkefnum. Hann var sendifulltrúi Rauða krossins í Sierra Leone árið 2013 og átti þar stóran þátt í að setja upp sms-viðvörunarkerfi vegna kólerufaraldurs. Þetta sama kerfi hefur reynst ómetanlegt á undanförnum mánuðum í baráttunni við útbreiðslu ebólufaraldursins í Vestur-Afríku.