10. okt. 2008 : Hjálparsími Rauða krossins 1717 er alltaf opinn!

Hjálparsími Rauða krossins 1717 er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð vegna depurðar, kvíða, þunglyndis eða sjálfsvígshugsana. Tilgangurinn með Hjálparsíma Rauða krossins er að vera til staðar fyrir þá sem finnst þeir vera komnir í öngstræti en vilja þiggja aðstoð til að sjá tilgang með lífinu.

Síðustu daga hefur fjöldi manns hringt í 1717 í tengslum við fjárhagsáhyggjur og vanlíðan vegna þeirra umbrota sem eiga sér stað í þjóðfélaginu. Starfsmenn og sjálfboðaliðar 1717 veita upplýsingar um hvar leita megi frekari úrræða ásamt því að veita sálrænan stuðning á erfiðum tímum.

3. okt. 2008 : Göngum og gefum í góðu veðri á morgun

Rauði krossinn hvetur landsmenn til leggja góðu málefni lið og gefa eina til tvær klukkustundir af deginum á morgun í að Ganga til góðs. Rauði krossinn þarf um 2500 sjálfboðaliða til að ná takmarki sínu að ganga í hvert hús á landinu.

„Við erum bjartsýn á að takmarkinu verði náð á morgun, því reynslan hefur sýnt okkur að mikill fjöldi fólks skráir sig á síðustu stundu eða á söfnunardaginn sjálfan," segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, og leggur áherslu á að hægt er að mæta beint á söfnunarstöðvarnar á morgun og skrá sig til þátttöku þar.

Söfnunarstöðvar eru um allt land þar sem fólk mætir til að fá söfnunarbauka. Helst vantar sjálfboðaliða á höfuðborgarsvæðinu en 24 söfnunarstöðvar eru í Reykjavík og í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Mosfellsbæ, á Álftanesi og Seltjarnarnesi. Auglýsingar um söfnunarstöðvar eru í blöðum og eins er hægt að fá upplýsingar um þær á raudikrossinn.is.