Göngum og gefum í góðu veðri á morgun

3. okt. 2008

Rauði krossinn hvetur landsmenn til leggja góðu málefni lið og gefa eina til tvær klukkustundir af deginum á morgun í að Ganga til góðs. Rauði krossinn þarf um 2500 sjálfboðaliða til að ná takmarki sínu að ganga í hvert hús á landinu.

„Við erum bjartsýn á að takmarkinu verði náð á morgun, því reynslan hefur sýnt okkur að mikill fjöldi fólks skráir sig á síðustu stundu eða á söfnunardaginn sjálfan,” segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, og leggur áherslu á að hægt er að mæta beint á söfnunarstöðvarnar á morgun og skrá sig til þátttöku þar.

Söfnunarstöðvar eru um allt land þar sem fólk mætir til að fá söfnunarbauka. Helst vantar sjálfboðaliða á höfuðborgarsvæðinu en 24 söfnunarstöðvar eru í Reykjavík og í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Mosfellsbæ, á Álftanesi og Seltjarnarnesi. Auglýsingar um söfnunarstöðvar eru í blöðum og eins er hægt að fá upplýsingar um þær á raudikrossinn.is.

Þeir sem ekki sjá sér fært að ganga í hús eru hvattir til að taka vel á móti sjálfboðaliðum og vera tilbúnir með reiðufé til að setja í baukinn þegar bankað er upp á.

Landssöfnun Rauða krossins „Göngum til góðs” er haldin annað hvert ár og er öllu fé sem safnast varið til langtímaverkefna Rauða krossins sem að þessu sinni er sameining fjölskyldna í Kongó sem sundrast hafa vegna stríðsátaka. Söfnunin er frábrugðin öðrum fjársöfnunum félagsins þar sem ekki einungis er verið að leita til almennings um fjárstuðning heldur einnig að virkja fólk til að sýna samstöðu sína með verðugu málefni í verki með því að gerast sjálfboðaliðar eina dagsstund.

Verndari söfnunarinnar, Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, mun verja deginum á morgun í söfnun Rauða krossins. Forsetinn hefur ferð sína á Akranesi kl. 10:30 á morgun þar sem tekið verður á móti honum í húsnæði Rauða krossins að Þjóðbraut 11. Kl. 11:30 verður hann í söfnunarstöð Rauða krossins að Þverholti 7 í Mosfellsbæ, og þaðan heldur hann í samhæfingarstöð söfnunarinnar að Efstaleiti 9 kl. 12:15.  Forsetinn mun svo safna fé í Kringlunni milli kl. 13:15-14:00.

Rauði krossinn hvetur fólk til að skrá sig á raudikrossinn.is eða með því að hringja á landsskrifstofu félagsins í síma 570 4000. Símar verða opnir til kl. 10 í kvöld. Einnig er hægt að gefa í söfnunina með því að hringja í síma 903 1010, 903 3030 og 903 5050. Þá dragast frá kr. 1000, kr. 3000 eða kr. 5000 frá næsta símreikningi.