Eitranir - Áfengi og lyf

31. jan. 2012

Oft er erfitt að hjálpa fólki undir áhrifum því það getur verið mótþróafullt og herskátt.

Hvað sérðu?
Eftirtalin einkenni eru merki um áfengisvímu. (Sum geta líka verið merki um sjúkleika eða áverka eins og sykursýki eða hitaslag.)
• Áfengisþefur úr vitum eða fötum.
• Óstöðugt, riðandi göngulag.
• Drafandi tal og vanhæfni til að halda uppi samræðum.
• Ógleði og uppköst.
• Roði í andliti.

• Sum þessara einkenna geta  verið merki um veikindi s.s.sykursýki eða hitaslag.

Hvað gerirðu?
• Sé hinn drukkni ofbeldisfullur skaltu hverfa frá, hringja á lögreglu og bíða síðan komu hennar á öruggum stað.
• Hringdu í Neyðarlínuna 112 ef ástand viðkomandi er alvarlegt.
• Kannaðu meðvitund og öndun.
• Leitaðu að áverkum. Áfengi getur deyft sársauka.
• Ef hinn drukkni liggur skaltu velta honum á hliðina til að draga úr hættunni á að æla berist ofan í lungun á honum. Áður en þú hreyfir viðkomandi þarftu að ganga úr skugga um að hann sé ekki meiddur á hrygg. Gera á ráð fyrir að slasað eða meðvitundarlaust fólk sé meitt á hrygg. Vegna skerts sársaukaskyns verður ástand drukkins fólks þó ekki metið svo áreiðanlegt sé. Leiki grunur á hryggáverkum skal bíða komu sjúkrabíls því sjúkraflutningafólk hefur rétta búnaðinn og þjálfunina til að skorða og flytja slasað fólk.
• Í ljósi þess að drukkið fólk getur verið berskjaldað fyrir kulda þarf ef til vill að flytja það í hlýrra umhverfi, færa það úr blautum fatnaði og breiða yfir það hlý teppi.

Varúð: Ekki
• Láta drukkið fólk sofa á bakinu.
• Láta drukkið fólk vera eitt.
• Reyna að hemja ofbeldisfullt, drukkið fólk.