Innvortis blæðing

3. feb. 2012

Innvortis blæðing getur verið lífshættuleg. Einkennin geta leynt sér því húðin er heil og blæðingin því ekki sýnileg. Orsakir innvortis blæðinga geta verið áverkar eftir slys sem ekki rjúfa húðina eða sjúkdómar svo sem magasár.

Allir sem lenda í hörðum árekstri eða bílveltu, þar sem teljandi skemmdir verða á ökutæki  verða fyrir bíl eða falla niður úr nokkurra metra hæð, eiga að fara í læknisskoðun. Í upphafi getur verið að sá slasaði sýni engin merki alvarlegs áverka en að nokkrum tíma liðnum getur blæðing náð því marki að einkennin komi fram. Ef viðkomandi er staddur á sjúkrahúsi getur verið mögulegt að meðhöndla hann, en sé hann í mikilli fjarlægð er voðinn vís.

Hvað sérðu?
• Mar eða aðra áverka á húð.
• Sáran, auman, stífan og marinn kvið.
• Brotin rif eða marinn brjóstkassa.
• Blóðug uppköst.
• Blóðugan uppgang úr lungum.
• Mjög dökkar eða blóðugar hægðir.
• Meðvitundarleysi ef lostið er alvarlegt.

Hvað geriðu?
• Leggðu einstaklinginn niður.
• Fylgstu með meðvitund og öndun.
• Hringdu tafalaust í Neyðarlínuna 112.