Áverkar á auga

3. feb. 2012

Aðskotahlutur í auga

Hvað gerirðu?
• Dragðu efra augnlokið niður og yfir það neðra. Láttu viðkomandi depla auganu nokkrum sinnum svo augnhárin geti sópað aðskotahlutnum innan úr efra augnlokinu. Ef þessi aðferð ber ekki árangur skaltu halda auganu lokuðu.
• Reyndu að skola hlutnum burt með volgu vatni. Haltu auganu opnu og biddu viðkomandi að hreyfa það um leið og þú skolar.
• Kannaðu neðra augnlokið með því að fletta því varlega niður. Reyndu að fjarlægja aðskotahlutinn með votri, dauðhreinsaðri grisju eða hreinum klút.
• Þegar aðskotahlutur festist undir efra augnlokinu þarf oft nokkra kunnáttu til að lyfta því og fjarlægja hlutinn. Biddu viðkomandi að horfa niður og kannaðu um leið efra augnlokið með því að taka í augnhárin og brettu upp á augnlokið yfir eldspýtu eða eyrnapinna. Ef þú sérð hlutinn fjarlægðu hann þá með votri, dauðhreinsaðri grisju eða klút.

Varúð: Ekki
• Láta hinn slasaða nudda augað.
• Reyna að fjarlægja fastan aðskotahlut.
• Nota þurra bómull (bómullarhnoðra eða eyrnapinna) eða áhöld (eins og flísatöng) við að losa aðskotahlut úr auga.

Aðskotahlutur gengur inn í augað

Hvað gerirðu?
· Skorðaðu hlutinn og reyndu að hylja augað.
· Settu einnig lepp yfir heila augað.
· Hringdu í Neyðarlínu (1-1-2).

Auga slegið úr augntóftinni

Við högg getur auga hrokkið út úr tóftinni.

Hvað gerirðu?
• Settu dauðhreinsaðar umbúðir, vættar með hreinu vatni, laust um augað. Ekki reyna að þrýsta auganu aftur inn í tóftina.
• Verndaðu augað, til dæmis með pappamáli, pappaspjaldi vöfðu í hólk eða kleinuhringslaga grisjupúða.
• Leggðu grisju yfir heila augað til að hindra að skaddaða augað hreyfist með því.
• Leitaðu strax læknishjálpar.

Högg á auga

Högg á auga getur valdið alvarlegum meiðslum sem geta ógnað sjón.

Hvað gerirðu?
• Leggðu ísbakstur við augað í um það bil 15-20 mínútur til að draga úr sársauka og bólgu. Ekki þrýsta á augað.
• Leitaðu strax læknishjálpar ef um er að ræða mikinn sársauka, skerta sjón eða glóðarauga.

Ljósbruni á auga

Útfjólublátt ljós getur valdið augnbruna (sólarljós, rafsuðulogi, bjartur snjór eða sólbaðslampi). Mikill sársauki kemur fram einni til sex klukkustundum síðar.

Hvað gerirðu?
• Leggðu kaldan bakstur yfir bæði augun.
• Láttu viðkomandi hvílast í myrkvuðu herbergi og gættu þess að hann fái ekki ljós í augun.
• Gefðu verkjalyf eða bólgueyðandi lyf ef þörf krefur.
• Leitaðu ráða hjá lækni eða augnlækni.