Sár

3. feb. 2012

Hvað sérðu?
Opið sár: Opið sár er það þegar húðin rofnar svo úr blæðir og þá er alltaf hætta á sýkingu.
Skráma: Skráma þýðir að ysta lag húðarinnar flettist af með litlum eða engum blóðmissi. Skrámum fylgir gjarnan sársauki vegna þess að taugaendar verða fyrir hnjaski. Sár af þessari gerð geta verið alvarleg ef þau eru stór eða aðskotahlutur kemst í þau. Skrámur ganga einnig undir heitunum fleiður, skeinur og skinnsprettur.
Svöðusár: Slíkt sár er með tættum og ójöfnum brúnum. Svöðusár getur myndast þegar eitthvað bitlaust fer í gegnum húð við kröftugt högg.
Skurðsár: Skurðsár er með jafnar brúnir. Magn blæðingar úr sárinu fer eftir dýpt skurðar, staðsetningu og stærð.
Stunga: Stungusár er djúpt, mjótt sár á húð eftir til dæmis hníf eða nagla. Þó stunguopið sé venjulega smátt er hættan á sýkingu mikil. Undirliggjandi skemmdir geta verið alvarlegar.
Afrifa: Ef húð rifnar og hluti hennar (flipi) ýmist hangir laus eða losnar alveg frá er talað um afrifu. Það  getur blætt mikið úr slíkum sárum. Afrifur eru algengastar á fingrum, höndum og eyrum.
Aflimun: Um aflimun er að ræða ef líkamshluti skerst eða rifnar af, eins og fingur, tá, hönd, fótur eða handleggur.

Hvað gerirðu?
• Þvoðu þér fyrst vandlega um hendurnar með sápu og vatni. Settu síðan upp gúmmíhanska ef þeir eru við hendina. Séu þeir ekki tiltækir notaðu þá mörg lög af sáragrisju, plastfilmu, plastpoka eða annað vatnsþétt efni til að hindra snertingu við blóð og vessa. Þú getur jafnvel látið hinn slasaða þrýsta sjálfan á sárið. Notaðu ekki berar hendur nema í neyð.
• Skoðaðu sárið með því að fjarlægja eða skera burt fatnað til að sjá hvaðan blæðingin kemur.
• Stöðvaðu blæðinguna með því að þrýsta beint á sárið.
• Hreinsaðu sárið. Sé sárið grunnt (skurður eða stunga) skaltu þvo sárið með hreinu vatni. Gott er að láta vatnið renna beint ofan í sárið og síðan burt. Skolun með vatni krefst þrýstings til að vefurinn hreinsist nægilega.
• Leggðu yfir sárið dauðhreinsaðar umbúðir, sem ekki festast við sárið. Haltu umbúðunum hreinum og þurrum. Til að halda þeim á sínum stað á handlegg eða fæti má nota heftiplástur eða sárabindi en annars staðar á líkamanum má líma niður öll fjögur horn umbúðanna.
• Skiptu daglega um umbúðir og oftar ef þær eru blautar eða óhreinar.
• Ef langt er í læknisaðstoð skaltu fjarlægja með dauðhreinsaðri flísatöng agnir sem ekki hafa skolast burt. Óhrein sár geta skilið eftir sig ör. Ekki skrúbba sárið því það er umdeilanlegt og getur skaddað vefi.
• Ef mikil blæðir úr sárinu, það er stórt, hætta er á sýkingu, svo sem eftir dýrabit, sárið er mjög óhreint og tætt eða það er stunga eftir hníf eða annan oddhvassan hlut, skaltu fela heilbrigðisstarfsfólki frekari umbúnað á sárinu nema þú sért á afskekktum stað í meira en klukkustundarferð til læknis. Hreinsaðu sárið þá eins vel og þú getur.
• Ef um stórt eða gapandi skurðsár er að ræða þarf að sauma sárið saman innan 6 klukkustunda. 

Sár á höfuðleðri
Blæðing úr höfuðleðri þýðir ekki að blóðstreymið til heilans sé skert. Hálsslagæðarnar sjá heilanum fyrir blóði en ekki höfuðleðrið. Ef þú kemur að manneskju með sár á höfuðleðri athugaðu hvort þú sérð í höfuðkúpuna eða heilavef og hvort dæld er í höfuðkúpunni.

Hvað gerirðu?
• Reyndu að hefta blæðinguna með því að þrýsta þétt á sárið með þurrum, dauðhreinsuðum umbúðum. Ef umbúðirnar verða mettaðar blóði skaltu bæta nýjum umbúðum ofan á þær sem fyrir eru.
• Gruni þig að höfuðkúpan sé brotin skaltu þrýsta við jaðra sársins en ekki á það mitt. Kleinuhringslaga umbúðir henta vel til slíks.

Nánari upplýsingar
Sár byrja að gróa um leið og þau myndast. Svæðið í kringum verður heitt og aumt, rautt og bólgið. Bólgan (bjúgur) myndast vegna aukins blóðflæðis um æðar en einnig vegna leka úr háræðum í kringum áverkasvæðið. Bólga augveldar viðgerðafrumum líkamans aðkomu að svæðinu. Roðinn kemur vegna efna sem losna út í blóðrásina og víkka æðarnar svo blóðflæði til svæðisins eykst. Þessi einkenni hverfa að mestu á vikutíma.