Raflost

3. feb. 2012

Umfang áverka af völdum snertingar við rafstraum fer eftir því hvort um er að ræða jafnstraum eða riðstraum, hver spennan er og umfang snertingarinnar og tímalengd.

Raflost getur valdið alvarlegum innvortis meiðslum. Eitt þúsund volta háspennt rafmagn er lífshættulegt. Jafnvel 220 volta spenna sem er algeng á heimilum getur verið banvæn.

Rafbruni getur verið þrenns konar: Hitabruni (logi), ljósbogabruni (leiftur) og raunverulegur rafbruni (snerting).

Hitabruni: Hann er afleiðing þess að rafstraumur kveikir í fatnaði eða hlutum sem eru í beinni snertingu við húð. Loginn sem rafstraumurinn kveikir veldur brunanum en ekki straumurinn sjálfur eða ljósbogi.

Ljósbogabruni : Slíkur bruni er afleiðing þess að rafstraumur hleypur milli staða, rafstraumurinn fer ekki í gegnum líkamann. Ljósbogabruni getur valdið miklum ytri áverkum þó hann vari aðeins örskamma stund.

Raunverulegur rafbruni:  er afleiðing þess að rafstraumur fer í gegnum líkamann. Einkennin eru áverkar á inn- og útgöngustað straumsins. Yfirborðsáverkar geta verið litlir en ef háspennustraumur fer í gegnum líkamann getur hann truflað hjartslátt (jafnvel valdið hjartastoppi), valdið bruna og öðrum innvortis áverkum.

Hvað sérðu?
Við raflost fer straumurinn inn í líkamann á einum stað og berst síðan um hann þar sem mótstaðan er minnst (um taugar og æðar). Sjáanlegur bruni getur virst smávægilegur en meiðslin innvortis eru meiri. Venjulega fer straumurinn út þar sem líkaminn snertir einhvern hlut eða er í jarðsambandi (t.d. í gegnum málmhlut) og stundum eru útgangsstaðirnir fleiri en einn.

Snerting við raflínu utanhúss - háspenna

Hvað gerirðu?
• Hafi einstaklingur fengið raflost við að snerta liggjandi háspennuraflínu verður þú að rjúfa strauminn áður en þú kemur nærri honum eða nokkru því sem gæti verið í snertingu við háspennulínuna.
• Ef þú finnur fiðring í fótunum eða neðri hluta líkamans þegar þú kemur nærri manni sem fengið hefur raflost skaltu stansa. Fiðringurinn er merki um að straumur sé í jörðinni. Lyftu öðrum fætinum, snúðu þér við og hoppaðu til baka á öruggan stað.
• Ef þú kemst að hinum slasaða skaltu ekki reyna að hreyfa við vírum, jafnvel þó þú hafir tréstöng við hendina. Ef spennan er nógu mikil (sjaldnast er vitað hve mikil hún er) getur straumurinn hlaupið gegnum áhöld og veitt raflost.
• Bíddu þar til fagmenn með réttan búnað geta rofið leiðslurnar eða aftengt. Hindraðu nærstadda í að fara inn á hættusvæðið.