Heilaáverkar

3. feb. 2012

 

Ef mikið högg kemur á höfuðið kastast heilinn til í höfuðkúpunni. Áverki sem slíkur getur valdið heilahristingi, en þá koma fram væg einkenni höfuðáverka eða heilablæðingar sem lýsir sér í alvarlegri einkennum.

Eins og aðrir líkamsvefir bólgnar heilinn ef hann verður fyrir hnjaski. En ólíkt öðrum vefjum er heilinn lokaður inni í höfuðkúpunni þar sem lítið rúm er fyrir bólgu. Bólga í heila eða blæðing undir höfuðkúpu getur valdið alvarlegum þrýstingi á heilann sem truflar starfsemi hans.

Hvað sérðu?
Eftirtalin einkenni eru merki um alvarlegan höfuðáverka:
• Rot og skert meðvitund. Meðvitundarleysi getur varað allt frá skammri stund upp í nokkrar klukkustundir eða jafnvel daga. Hinn slasaði gæti verið ráðvilltur, ruglaður og óskýr í hugsun.
• Höfuðverkur.
• Minnisleysi.
• Misstór sjáöldur.
• Uppköst og ógleði.
• Sjóntruflanir. Hinn slasaði sér tvöfalt eða augun hreyfast ekki saman.
• Máttleysi, jafnvægisleysi eða lömun.
• Krampi.
• Blóð- eða mænuvökvi seytlar úr eyrum eða nefi.
• Árásargirni.

Hvað gerirðu?
• Mikilvægt er að leita læknishjálpar strax.
• Reyndu að hefta blæðingu úr höfuðleðrinu. Leiki grunur á höfuðkúpubroti skaltu þrýsta á jaðra sársins en ekki beint á það. Ekki reyna að hreinsa höfuðsár ef grunur leikur á að höfuðkúpan sé brotin. Ekki reyna að hindra blóð- og mænuvökvaflæði úr eyrum og nefi því það gæti valdið auknum þrýstingi á heilann.
• Spurðu hinn slasaða hvaða dagur er, hvar hann sé og um persónulega hluti eins og afmælisdag eða heimilisfang. Ef viðkomandi getur ekki svarað slíkum spurningum gæti eitthvað alvarlegt verið að.
• Skorðaðu höfuð. Gera á ráð fyrir að meðvitundarlaust fólk sé með áverka á hálsi eða hrygg.
• Hreinsaðu burt ælu.
• Fylgjast með meðvitund og öndun í a.m.k. sólahring.
Því miður er litla skyndihjálp hægt að veita þeim sem skaddast á heila og eina ráðið að koma viðkomandi sem fyrst í hendur sérfræðinga.