Þröngur hringur

3. feb. 2012

Það getur haft alvarlegar afleiðingar ef hringur heftir blóðrásina of lengi út í fingur. Drep getur myndast á innan við 4-5 klukkustunda.

Hvað gerirðu?
Ef erfitt er að ná hring af fingri má reyna eina eða fleiri aðferðir til losa hann:
• Smyrja feiti, olíu, smjöri, vasilíni eða öðru hálu efni á fingurinn.
• Stinga fingrinum í kalt vatn eða leggja við hann íspoka í nokkrar mínútur til að minnka bólgu eða þrota.
• Nudda frá fingurgómnum að hendinni til að færa bólgu til, smyrja fingurinn síðan aftur.
• Vefja tvinna eða tannþræði þétt um fingurinn, byrja um 2,5 cm framan við hringinn og vefja svo fast að honum. Þannig þrýstist bólgan í áttina að hendinni. Stinga tvinnaendanum undir hringinn með eldspýtu eða tannstöngli og vinda svo hægt ofan af honum við hringinn. Þannig er hægt að snúa hringnum yfir tvinnann og fram af fingrinum.
• Saga sundur hluta hringsins t.d. með hringsög, gullsmíðasög, hringskera eða fínu járnsagarblaði.