Lost

2. feb. 2012

Hugsa má um blóðrásina sem þríþætt kerfi: Virka dælu (hjartað), leiðslur (æðarnar) og vökva sem dælt er um leiðslurnar. Verði truflun á einhverjum þessara þátta getur blóð hætt að streyma til vefja líkamans og afleiðingin orðið það sem kallað er lost.

Skipta má losti í þrjá flokka eftir því hvaða þáttur hefur bilað:
Dælubilun: Það að hjartað dæli ekki nægu blóði. Til dæmis getur alvarlegt hjartaáfall skaddað hjartavöðvann svo að hjartað hættir að geta dælt nægu blóði um æðarnar.
Leiðslubilun: Æðarnar (leiðslurnar) víkka svo mikið að blóðið í líkamanum nær ekki að fylla þær. Orsakirnar geta t.d. verið mænuskaði, ofnæmi eða ofneysla lyfja.
Vökvatap: Líkaminn missir verulegt magn vökva úr kerfinu venjulega vegna blæðingar.

Hvað sérðu?
Einkenni losts eru margskonar enda ástæður losts af ýmsum toga.
• Minnkuð meðvitund, kvíði og eirðarleysi.
• Föl, köld og þvöl húð, blámi á vörum og fölvi undir nöglum.
• Ógleði og uppköst og þorsti.
• Hröð öndun og hraður eða veikur púls.
Mjög erfitt er að greina einkenni og ástæður losts.