Sár - Sýkingar

3. feb. 2012

Sýking getur komið í öll sár og valdið miklum skaða. Mikilvægt er að kunna að greina sýkt sár. Oftast eru sýkt sár rauð og bólgin. Í þeim getur verið gröftur, hiti og sársauki. Eitt eða fleiri rauð strik (sogæðabólga) geta myndast út frá sárinu í áttina til hjartans. Sogæðabólga er alvarlegt einkenni þess að sýkingin sé að breiðast út. Kuldahrollur og sótthiti eru merki þess að sýkingin hafi borist út í blóðrásina (og kallast þá sýklasótt/ blóðeitrun). Þá skal leita læknishjálpar án tafar.

Stífkrampi
Stífkrampasýkillinn veldur ekki stífkrampa einn og sér en ef hann berst í sár sem lítið súrefni kemst að (t.d. stungusár) getur hann myndað mjög sterkt eitur. Eitrið berst gegnum taugakerfið til heilans og mænunnar og veldur samdrætti í vissum vöðvum (einkum í neðri kjálkanum). Ekki er þekkt neitt mótefni gegn eitrinu þegar það er komið í taugakerfið.

Bólusetning getur algerlega fyrirbyggt stífkrampa. Það þarf sprautu í nokkur skipti til að gera ónæmiskerfið hæft til að verjast eitrinu og fá Íslendingar þær með ungbarnabólusetningu. Viðbótarsprautu er þörf um 20 ára aldur til að ýta við ónæmiskerfinu og síðan á 10 ára fresti.

Reglur um stífkrampasprautur eru þessar
• Hver sem meiðist og hefur aldrei verið bólusettur gegn stífkrampa skyldi umsvifalaust fá sprautu sem síðan þarf að endurtaka eftir 1 mánuð, aftur eftir 1 ár og síðan á 10 ára fresti.
• Hver sem hefur verið bólusettur en hefur ekki fengið viðbótarsprautu undanfarin tíu ár ætti að fá eina slíka.
• Bólusetja verður gegn stífkrampa innan þriggja sólarhringa frá því fólk meiðist svo bólusetningin geri gagn.

Varúð: Ekki
• Skola sár með óblönduðu joði s.s. Betadine 10% eða spritti 70%. Það drepur auk sýkla frumur líkamans og veldur sársauka. Sumir hafa ofnæmi fyrir joði.
• Nota vetnisperoxíð á fersk sár. Það truflar blóðrennsli í háræðum og tefur fyrir því að sár grói.
• Nota sýkladrepandi smyrsl á stungur eða sár sem þarf að sauma, það gæti hindrað frárennsli vessa.
• Leggja sár í bleyti til að hreinsa það. Ekkert styður gagnsemi þess.