Hiti - Börn

31. jan. 2012

Sótthiti er varnarviðbrögð líkamans gegn veiru- eða bakteríusýkingu. 

Hvað sérðu?
Veik börn eru oftast vansæl og ergileg. Þá er eðlilegt að þau gráti, séu slöpp og þreytt og vilji stöðugt hafa einhvern hjá sér.

Almenn einkenni veikinda geta verið:
• Hiti og gljáandi augu.
• Heit, rauð og sveitt húð.
• Hósti og nefrennsli.
• Lystarleysi.
• Verkir. 
• Uppköst og niðurgangur.
• Útbrot.

Hættumerki veikinda geta verið:
• Skert meðvitund.
• Hröð öndun eða öndunarerfiðleikar.
• Útbrot eða föl húð; þurrkur.
• Ef barnið hefur misst meira en 5% af upphaflegri þyngd.
• Hnakkastífleiki.
• Sviði við þvaglát.

Hvað gerirðu?
• Fylgstu náið með því hvaða einkenni fylgja hitanum. Ef hættumerki koma fram skaltu leita læknis án tafar.
• Mældu hitann tvisvar á dag ef barnið virðist vera með hita eða önnur merki um sýkingu.
• Gefðu barninu vel að drekka. Veik börn þurfa meiri vökva en vanalega en minna máli skiptir hvort þau borða.
• Gott er að vigta veikt barn daglega svo hægt sé að fylgjast með því hvort barnið er farið að ofþorna. Ef barn hefur misst um 5% eða meira af líkamsþunga sínu þarf að fara með það til læknis.
• Leitið strax læknis, ef barn yngra en 3 mánaða fær hita eða barn hefur verið með hita lengur en í 3 daga. Ef barn er með hita yfir 38,5 g gæti þurft að grafast fyrir um orsökina.

Börn mega oftast fara í leikskóla eða skóla ef þau hafa verið hitalaus í meira en 24 stundir.