Hitakrampi - Börn

31. jan. 2012

Ef barn fær háan hita getur það fengið hitakrampa. Um 3-4% allra barna fá slíkan krampa einhvertíma á ævinni og eru börn á aldrinum 1-3 ára í sérstökum áhættuhóp. Börn fá gjarnan krampa þegar hitinn er að hækka og hann varir yfirleitt í 1-2 mínútur.

Hvað gerirðu?
• Verðu barnið fyrir meiðslum og tryggðu að ekkert hefti öndun þess.
• Ef barnið kastar upp snúðu því á hliðina með höfuðið niður svo að magainnihaldið fari ekki ofan í lungun.
• Vertu hjá barninu þar til krampinn er liðinn hjá.
• Eftir að krampinn er yfirstaðinn settu barnið í hliðarlegu og leyfðu því að sofa en fylgstu vel með meðvitund og öndun.
• Hafðu samband við lækni eða hringdu í 112 ef barnið er að fá krampa í fyrsta skipti eða krampinn varir í meira en 5 mínútur.

Gott er kæla barn með mikinn sótthita niður með því að opna glugga, færa barnið úr fötum eða bleyta handklæði og leggja á enni barnsins.