Landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans
Í nær öllum sjálfstæðum ríkjum heims hefur verið stofnað landsfélag Rauða krossins eða Rauða hálfmánans. Sérhvert landsfélag þarf að vera viðurkennt af ríkisstjórn í viðkomandi landi, Alþjóðasambandinu og Alþjóðaráði Rauða krossins. Í flestum löndum er landsfélagið kennt við Rauða krossinn en í flestum löndum múslíma er notað táknið rauður hálfmáni á hvítum grunni.
Landsfélögin standa fyrir heilbrigðis-, öryggis- og velferðarstarfi en starfa óháð hvert öðru. Samt sem áður er það skylda þeirra að aðstoða hvert annað ef þörf krefur og starfa í anda hinna sjö grundvallarmarkmiða alþjóðahreyfingarinnar; mannúðar, óhlutdrægni, hlutleysis, sjálfstæðis, sjálfboðins starfs, einingar og alheimshreyfingar.
Sérhvert landsfélag vinnur að málefnum sem þörf er á í viðkomandi landi. Á meðal þess sem landsfélögin vinna að er:
- fræðsla um mannúðarsamninga sem undirritaðir hafa verið,
- sjá um þjónustu í tengslum við neyðarvarnir,
- rekstur heilsugæslustöðva,
- fræðsla til almennings vegna málefna sem tengjast verkefnum Rauða krossins og Rauða hálfmánans eins og heilbrigði og öryggi,
- blóðgjafaþjónusta,
- ungmennastarf.
Öll landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans byggja starf sitt á sjálfboðavinnu og er stjórnað af sjálfboðaliðum.
- Eldra
- Nýrra