5. des. 2007 : Rauði krossinn hyllir tombólubörnin á alþjóðadegi sjálfboðaliðans

Alþjóðadagur sjálfboðaliðans er haldinn hátíðlegur um allan heim þann 5. desember. Að því tilefni vill Rauði krossinn sérstaklega þakka tombólubörnunum, sem eru yngstu sjálfboðaliðar félagsins, fyrir stuðninginn á árinu.

Rúmlega 300 börn um allt land stóðu fyrir tombólum til styrktar starfi Rauða krossins á árinu og söfnuðu alls um 500.000 kr. Framlag tombólubarnanna rennur alltaf til ungmenna- og barnastarfs Rauða krossins víða um heim, og að þessu sinni verða peningarnir notaðir til að hjálpa börnum í Malaví í suðurhluta Afríku.

Rauði kross Íslands hefur unnið að alnæmisverkefnum í samstarfi við Rauða krossinn í Malaví frá árinu 2002. Tugþúsundir barna í Malaví hafa misst foreldra sína úr alnæmi, og eiga því um sárt að binda. Í bænum Nkalo í suðurhluta  landsins eru rúmlega 4.000 börn sem Rauði kross Íslands hjálpar á ýmsan hátt svo þau geti haldið áfram í skóla. Byggð hafa verið þrjú athvörf og verða peningar tombólubarnanna notaðir til að kaupa borð og stóla, leikföng og skóladót.