Fatapakkar frá sjálfboðaliðum Rauða kross Íslands til Malaví

10. apr. 2009

Rauði kross Íslands sendi gám með notuðum fatnaði og vörum sem skortur var á til malavíska Rauða krossins í nóvember 2008. Meðal þessa voru 2.185 pakkar með ungbarnafatnaði sem sjálfboðaliðar deilda Rauða kross Íslands útbúa. Verkefnið er kallað „Föt sem framlag” og liggja þar ótal margar óeigingjarnar vinnustundir að baki. Vörunum er m.a. dreift til skjólstæðinga verkefnanna í Chiradzulu og Mwanza. Með í för var ljósmyndarinn Anette Kays sem tók meðfylgjandi myndir.

Aida var ein mæðranna sem fékk pakka fyrir son sinn Faris. Með stóru brosi sagði hún Rauða kross starfsmanni að hún væri mjög ánægð með pakkann sem hún fékk. Aida þénar um þrjá Bandaríkjadali á mánuði við garðvinnu en það myndi kosta hana heil mánaðarlaun að kaupa notaðan bol á markaðinum á staðnum.