Himnarnir hrundu

Sigríði Björgu Tómasdóttur blaðamann á Fréttablaðinu

2. okt. 2010

Caroline Seyani missti móður sína þegar hún var fimmtán ára gömul. Föður sinn þekkti hún aldrei. Hún er einn skjólstæðinga Rauða kross Íslands í Malaví og Fréttablaðið birtir hér brot úr sögu hennar. Sigríður Björg Tómasdóttir tók saman.

Caroline Seyani er fædd í ágúst 1987. Hún ólst upp hjá móður sinni en frétti það fyrst eftir andlát hennar að faðir hennar var kaþólskur prestur sem hafði verið í sambandi við móður hennar um skeið, þrátt fyrir skírlífisákvæði kaþólsku kirkjunnar. Á æskuárum hennar voru sjö manns á heimilinu: móðir hennar, Clara og Doreen systur hennar og frændsystkinin Josephine, Catherine og Edward, börn móðursystur hennar sem dó árið 1998. Þegar Caroline var ellefu ára gömul varð móðir hennar að flytja með fjölskylduna frá borginni Blantyre, þar sem hún vann fyrir sér sem saumakona, í þorpið Chiradzulu til að sjá um móður sína. Eldri systir móður hennar var þá dáin

Móðirin fékk krabbamein
Það má gera sér í hugarlund hvaða merkingu lífið hafði fyrir mig, systkini mín og frændsystkini eftir að hafa misst svo marga nákomna ættingja. Svo veiktist mamma í ársbyrjun 2001, eftir nokkurra mánaða þjáningu greindist hún með leghálskrabbamein. Þrátt fyrir krabbameinsmeðferð breiddist meinið út og hún lést 20. nóvember 2002 vegna blóðmissis. Við tóku erfiðir tímar hjá mér og ættingjum mínum. Ég var í gagnfræðaskóla. Clara var gift og Doreen dáin. Einungis börn voru eftir á heimilinu, ég, frændsystkinin Josephine, Catherine og Edward og Dennis sonur Doreen. Áfallið var hræðilegt. Sorgin var að buga ömmu, sem lést ári síðar. Það var eins og himnarnir hefðu hrunið yfir okkur. En við urðum að bjarga okkur. Vinnusemin sem móðir mín hafði innrætt mér veitti mér þann styrk sem ég þurfti til að komast af. Við unnum hörðum höndum á maísakrinum okkar og uppskeran var tíu pokar, sem dugði okkur fram á næsta ár. Þorpshöfðinginn tók eftir iðjusemi okkar og var svo vænn að gefa okkur áburð á akurinn okkar.

Stærsta vandamálið fyrir mig var hvernig ég gæti haldið áfram skólagöngu án þess að eiga fé fyrir skólagjöldum. Á meðan á regntímanum stóð lifðum við á einstaka verkum sem okkur buðust, sem aðallega fólust í að reyta arfa í görðum nágrannanna. Peningana notuðum við fyrir nauðþurftum heima og til að greiða skólagjöldin. Á hverju misseri var ég rukkuð um skólagjöldin, sem lagðist þungt á mig. Ég seldi að lokum nokkur húsgögn til að eiga fyrir þeim. Gjöldin voru um 34 dollarar [andvirði um 3.800 íslenskra króna] og var þá skólabúningur innifalinn. Það var stórfé fyrir munaðarleysingja eins og mig. Ég held að einkunnirnar mínar hefðu orðið miklu betri hefði lærdómsumhverfi mitt verið betra. Sem betur fer voru Catherine og Josephine enn í barnaskóla á þessum tíma en í þá þarf ekki að greiða skólagjöld.

Stóðst gylliboð karla
Gagnfræðaskólaárin voru mjög erfið en móðir mín lést rétt eftir að ég hafði tryggt mér pláss í skólanum. Fjárhagsvandræðin gerðu það að verkum að ég hefði getað látið freistast til þess að taka upp samband við menn til að safna peningum fyrir skólanum og nauðþurftum. Talsverður þrýstingur var á mér í þessum efnum, einn vinur minn sagði mér meira að segja frá því að nokkrir ungir menn væru að gefa mér auga og ég ætti að slá til. Ég sagði nei! Einhverjir vinir mínir hljóta að hafa hvatt þessa menn því ég fékk mörg ástarboð upp úr þessu og lét næstum undan. En mér tókst að minna mig á systur mínar og frænkur sem höfðu orðið mæður allt of ungar og ekki einu sinni gifst feðrum barna sinna. Allt vegna þess að þær voru sviknar í sambönd við menn sem vildu bara setja þær á lista yfir konur sem þeir hefðu náð í!"

Caroline lauk námi en fékk ekki nægilega góðar einkunnir fyrir háskóla. Hún dró fram lífið við sult og seyru en ákvað svo að læra blaðamennsku í eitt ár í Blantyre og fékk aðstoð við það frá systur sinni og manni hennar. Hún flutti svo til þorpsins Nkalo í ársbyrjun 2009 en þar hafði móðurarfur hennar orðið uppspretta deilna sem hún vildi ekki taka þátt í. Hún fór út í rekstur með frænku sinni og þær opnuðu verslun í Blantyre.

Starfar fyrir Rauða krossinn
Þar komst hún á nýjan leik í kynni við Rauða krossinn en hún hafði fengið heimsókn frá starfsfólki hans skömmu eftir að móðir hennar lést. Þau höfðu gefið henni og frændsystkinum hennar áburð og henni dagbók til þess að hún gæti setið við skriftir eins og hana dreymdi um.

"Ég er mjög þakklát Rauða krossinum í Malaví fyrir að hafa uppi á mér og hvetja mig til dáða. Ég tek núna þátt í starfi þeirra. Eftir að ég sagði þeim frá lífi mínu og baráttunni vildu þau fá mig til starfa fyrir sig. Ég tek nú þátt í starfi sem miðar að því að styrkja ungar stúlkur og upplýsa þær um hætturnar sem fylgja ótímabærum þungunum og giftingum og alnæmi.

Vegna þess að ég er sprottin úr sama umhverfi og þær getur lífshlaup mitt orðið þeim hvatning. Þó að ég sé flutt til Blantyre hitti ég stúlkur í Nkalo hálfsmánaðarlega ... Ég er þakklát Rauða krossinum fyrir að leyfa mér að deila reynslu minni. Ég vona að þessi stutta saga um baráttu okkar hér muni einnig nýtast Rauða krossinum á Íslandi til að safna fé fyrir starfið hér."