Alnæmisleikþættir til fræðslu í Malaví

Fréttablaðið

5. okt. 2010

Hlutfall alnæmissmitaðra í Malaví hefur lækkað úr 14,4 prósentum í 12 síðan 2007. Íslenski Rauði krossinn hefur aðstoðað heimamenn, kennt þeim að rækta grænmeti og uppfrætt þá um smitleiðir með leikþáttum í stíl Spaugstofunnar. Greinin birtist í Fréttablaðinu 05.10.2010.

Alnæmissmituðum í Malaví hefur fækkað úr 14,4 prósentum landsmanna í tólf prósent frá árinu 2007. „Það er stórkostlegt fyrir okkur að vera partur af því sem er að gerast,” segir Þórir Guðmundsson, sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða kross Íslands.

Rauði kross Íslands starfar með Rauða krossi Malaví í tveimur héruðum í landinu þar sem hlutfall alnæmissmitaðra er með því hæsta sem gerist. Þar aðstoða samtökin um 3.600 börn sem flest eru munaðarlaus eftir að hafa misst foreldra sína úr alnæmi. „Þá þurfa yfirleitt afi og amma eða aðrir þorpsbúar að ala þau upp og það er gífurlegt álag á fólk sem rétt lifir milli uppskerutímabila. Við höfum meðal annars komið upp athvörfum fyrir þessa krakka þar sem sjálfboðaliðar hugsa um þau og þá fá þau eina máltíð á dag. Fyrir mörg þeirra er þetta eina máltíðin sem þau fá,” segir Þórir.

Liður í forvarnastarfinu er að leiklistarhópar, skipaðir heimamönnum, fara á milli þorpa og setja upp leikþætti þar sem upplýsingum um smitleiðir alnæmis er komið á framfæri. „Það er geysilega skemmtilegt og mikil tilbreyting fyrir fátæka bændur í þorpunum þegar það kemur svona leiklistarhópur og setur upp eins konar Spaugstofuskets sem síðan inniheldur líka skilaboð. Nú vill maður ekkert segja að það sé beint samhengi á milli þess að við höfum verið með þessa fræðslu í tveimur héruðum og það að alnæmissmituðum sé að fækka,” segir Þórir.

Þórir segir að heimamönnum sé einnig hjálpað að rækta grænmeti. „Nú er svo komið að fólk kemst á alnæmislyf ef það uppgötvar sjúkdóminn nógu snemma - og það skiptir gífurlegu máli - en hins vegar er aukaverkan lyfjanna sú að menn eru stöðugt svangir. Til þess að þau virki sem skyldi þarf næringarástand líkamans líka að vera gott,” segir Þórir. Fólk sé því kynnt fyrir nýjum ræktunaraðferðum, meðal annars í þeirri von að sú þekking berist víðar.

stigur@frettabladid.is