Stórir draumar fylgja smálánum Rauða krossins í Malaví

25. jan. 2011

Eftirvæntingin skín úr augum fólks sem hefur safnast saman í athvarfi Rauða krossins í fjallaþorpi í sunnanverðu Malaví. Verkefnisstjóri Rauða krossins er kominn með peninga sem afhentir verða fólki sem ætlar að freista þess að nýta þá til að bæta líf sitt og sinna fjölskyldna.

Um er að ræða skjólstæðinga úr alnæmisverkefnum sem Rauði kross Íslands styður í Malaví. Fólkið hefur allt farið á vikulangt námskeið þar sem það hefur lært að gera viðskiptaáætlanir, fengið fræðslu um rekstur lítilla fyrirtækja og hlustað á fyrirlestra um meðferð fjár.

Þórir Guðmundsson sviðsstjóri alþjóðastarfs Rauða kross Íslands var nýlega á ferð um verkefnasvæðin í Chiradzulu og ræddi við sjálfboðaliða og skjólstæðinga, þar á meðal áhugasama smálánaþega.

„Ég ætla að kaupa baunir á markaði í bænum og selja þær svo í sveitinni þar sem ég á heima," segir Janet Munka, sem tók um 7.000 króna lán. „Ég er einstæð móðir með tvö börn. Maðurinn minn dó fyrir fjórum árum og sjálf er ég alnæmissmituð."

Einbeitin og áræðin í fasi segist Mercy Nadi ætla að kaupa DVD diska með bíómyndum og selja í þorpunum í kring. Hún tók 15.000 króna lán og telur sig geta keypt alls 84 diska sem hún ætlar að bjóða fólki sem hefur aðgang að sjónvarpi og diskaspilurum.

„Já, ég er góður frumherji," segir hún ófeimin. Hún hefur komist að því að kennarar hafa stundum aðgang að diskaspilurum og sömuleiðis eiga sumar fjölskyldur slík tæki og geta með þeim stytt sér stundirnar eftir að dimmir.

„Ég mun borga þetta til baka," segir hún. Meðal þess sem hvetur hana áfram er að hún þarf að ala önn fyrir sex börnum systkina sinna, sem hún tók að sér eftir að systkini hennar féllu frá vegna alnæmis.

Janet og Mercy þurfa báðar að greiða lánið með vöxtum eftir sex mánuði. Ef vel gengur, verður þannig til sjóður sem smám saman stækkar og nýtist til að lána öðrum.

Í öllum tilfellum er féð notað til verkefna sem lántakendur ætlast til að gefi góðan arð.

Stór þáttur í alnæmisverkefnum Rauða krossins í Malaví er að styðja fólk til sjálfshjálpar. Auk smálánanna, sem nú er verið að prufukeyra, þá hafa alnæmissmitaðir til dæmis fengið stuðning til þess að rækta maís og grænmeti, fótstignar pumpur til þess að veita vatni á akra sína og húsdýr til ræktunar.