Árangursríkt starf í Malaví

6. júl. 2011

„Starfið í þágu alnæmissmitaðra í Malaví er mjög öflugt og hefur greinilega skilað árangri," segir Bernard Gardiner sem um þessar mundir er að gera úttekt á aðstoð Rauða krossins vegna alnæmisvandans í sunnanverðri Afríku. Hann hefur ásamt nokkrum öðrum sérfræðingum á þessu sviði metið árangurinn af starfinu í tíu löndum og er Malaví þar á meðal.

Rauði krossinn hér heima hefur um árabil stutt alnæmissmitaða í Malaví og hafa regluleg framlög frá mannvinum Rauða krossins runnið m.a. til þessa starfs.

Sérfræðingarnir, sem gerðu úttektina í Malaví, voru á einu máli um að mjög vel hefði tekist til við að aðstoða alnæmissmitaða í þeim tveimur héruðum í sunnanverðu landinu sem nutu fjárframlaga frá Íslandi. Héruðin heita Chiradzulu og Mwanza en þar hafa margir smitast af alnæmisveirunni – bæði konur og karlar – og flestir hinna smituðu búa við mikla fátækt. 

Sérfræðingarnir voru sammála um að í héruðum tveimur hefði tekist að beina aðstoð Rauða krossins að því fólki sem verst stendur vegna veikinda og fátæktar. Sjálfboðaliðar hafa veitt þeim veikustu stuðning og aðhlynningu og auk þess hefur fólkið fengið aðstoð við að rækta matvæli.

Einnig bentu sérfræðingarnir á að Rauða krossinum hefði tekist að virkja ungt fólk til að standa að forvörnum fyrir jafnaldra sína. Loks má nefna að í Mwanza hefur Rauði krossinn stutt konur sem stunda vændi til að mynda hóp til að vinna að forvörnum gegn alnæmi – en það mun vera einsdæmi í þessum tíu löndum sem úttektin náði til.