Rauði krossinn á Íslandi og Vífilfell undirrita þriggja ára styrktarsamning: Koma upp vatnsbrunnum við sjö grunnskóla í Masanje í Malaví

11. okt. 2013

Rauði krossinn á Íslandi hefur undirritað þriggja ára styrktarsamning við Vífilfell um gerð vatnsbrunna í Malaví. Samningurinn er í nafni vörumerkisins Topps en fyrir hverja flösku sem keypt er af Toppi gefa neytendur um leið þrjá lítra af hreinu vatni í Malaví. Vífilfell og Rauði krossinn hafa áður átt í góðu samstarfi. Árin 2010-2011 gaf fyrirtækið allan ágóða – á sjöundu milljón króna – af sölu Pure Icelandic vatns til verkefnis Rauða krossins á sviði neyðarvarna hér á Íslandi.

Féð, sem Rauði krossinn á Íslandi fær út úr verkefninu, verður notað til þess að bora eftir vatni og koma upp brunnum og vatnsdælum við sjö grunnskóla í Masanje í Mangochi-héraði, þar sem ekkert ferskt drykkjarvatn er að hafa. Allir íbúar svæðisins, um 50.000 talsins, munu njóta góðs af þessum aðgerðum.

Undirstaða bættra lífskjara
„Það er mikils virði fyrir Rauða krossinn að fá stuðning fyrir verkefni sín í Malaví með þessum hætti. Það er mjög táknrænt að þeir sem kaupa Topp á Íslandi skuli stuðla að því að fjölskyldur í fátækasta héraði í einu fátækasta landi heims fái einnig hreint vatn í leiðinni,“ segir Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða krossins á Íslandi. „Aðgangur að hreinu vatni er í raun undirstaðan fyrir bættum lífskjörum fjölskyldna á svæðinu. Ekki einungis hefur það áhrif á heilsufar barna og fullorðinna, heldur hefur einnig áhrif á stöðu kvenna og stúlkna í samfélaginu og auðveldar þeim skólasókn.“

Í Afríku sunnan Sahara er öflun vatns undantekningalítið í höndum stúlkna og kvenna. Oft þurfa þær að ganga langar vegalengdir eftir vatni. Þær hafa af þeim sökum mun minni tíma til að sinna heimanámi en piltar.

Margvíslegur stuðningur Vífilfells
„Vífilfell leggur árlega margvíslegum mannúðar- og velferðarverkefnum lið með beinum og óbeinum hætti og við höfum áður átt gott samstarf við Rauða krossinn um verkefni hér innanlands. Nú beinum við sjónum okkar að Afríku. Í herferð okkar munum við ekki aðeins vekja athygli á vatnsskorti í Malaví heldur einnig minna okkur sjálf á þann munað sem við búum við á Íslandi þegar vatn er annars vegar,“ segir Rannveig Hrönn Brink, markaðsstjóri safa og vatnsdrykkja hjá Vífilfelli.