Söfnuðu fyriri vatnsbrunni í Afríku

14. feb. 2014

Nemendur í Menntaskólanum á Akureyri unnu á dögunum að verkefni sem þau kölluðu „Áhrif mín á samfélagið.“ Þetta var eins og nafnið bendir til samfélagsverkefni þar sem nemendur skoðuðu hvernig hægt er, stundum með auðveldum hætti að bæta líf okkar og annarra í samfélaginu. Fjórir nemendur; Arney Líf Þórhallsdóttir, Anna Lilja Valdimarsdóttir, Guðfinna Rós Sigurbrandsdóttir og Þóra Katrín Erlendsdóttir, völdu Rauða kross verkefni sem snýr að vatnsbrunnum í Afríku.

Stúlkurnar ákváðu að skipuleggja söfnun þar sem fólki og fyrirtækjum var gefin kostur á að styrkja þetta tiltekna verkefni. Miðað við að kostnaður við hvern brunn geti verið um 150 – 200 þúsund krónur og að hver brunnur geti þjónað um 1000 manns þá er ljóst að stúlkurnar hafa með þessu framtaki sínu bætt lífskjör fjölda manns.

Í Masanje í Malaví búa um fimmtíu þúsund manns. Þar hafa íbúar þorpanna á svæðinu þurft að ganga langar leiðir til að sækja sér vatn eða notast við óhreint vatn úr pollum og lækjum sem þorna upp í lok þurrkatímabilsins. Í brunnaverkefninu er borað eftir vatni sem yfirleitt finnst á um 20 metra dýpi en til að tryggja að nægilegt vatn sé til að endast næstu 10 ár þá er farið niður á 45 metra dýpi. Handknúnar dælur eru svo settar í holurnar þegar gengið hefur verið frá þeim og hópar þorpsbúa þjálfaðir í meðferð þeirra og viðhaldi. Sjálfboðaliðar Rauða krossins í þorpunum mynda síðan með sér eftirlitshóp sem fer reglulega á milli til að ganga úr skugga um að allt virki eins og á að gera.