Vatn er undirstaða lífsins – alþjóðadagur vatnsins 22. mars

21. mar. 2014

Vatn er undirstaða alls lífs. Aðgangur að hreinu vatni eru nokkuð sjálfsögð mannréttindi í huga flestra Íslendinga, en því fer fjarri að svo sé allstaðar í heiminum.  

Það er því ekki að ástæðulausu að alþjóðadagur vatnsins sé haldinn hátíðlegur um allan heim þann 22. mars til að minna jarðarbúa á að hægt er að bæta lífsgæði fólks með því einu að tryggja því gott aðgengi að góðu vatni.

Óhreint vatn veldur ýmsum sjúkdómum sem geta kostað þá lífið sem veikir eru fyrir.  Barnadauði er jafnan hærri á þeim stöðum sem aðgengi að hreinu vatni er slæmt.

Rauði krossinn á Íslandi hefur unnið að því síðasta ár í samstarfi við Vífilfell að fjármagna gerð vatnsbrunna í Mangochi héraði í Malaví. Samkvæmt samkomulaginu gefa neytendur um þrjá lítra af hreinu vatni í Malaví fyrir  hverja flösku sem keypt er af Toppi.
 
Fjármagnið er notað til þess að bora eftir vatni og koma upp brunnum og vatnsdælum við grunnskóla í Masanje í Mangochi, sem er fátækasta héraðið í einu fátækasta landi heims.  
Brunnarnir hafa þegar komið að góðum notum í þorpum þar sem ekkert ferskt drykkjarvatn hefur verið að hafa. Allir íbúar svæðisins, um 50.000 talsins, njóta góðs af þessum aðgerðum.
 
Í Afríku sunnan Sahara er öflun vatns undantekningalítið í höndum stúlkna og kvenna. Oft þurfa þær að ganga langar vegalengdir eftir vatni. Þær hafa af þeim sökum mun minni tíma til að sinna heimanámi en piltar. Þegar hefur orðið þar breyting á, þar sem skólasókn stúlkna hefur aukist til muna í þeim þorpum þar sem borað hefur verið eftir vatni.  

Rauði krossinn hvetur því alla til að drekka Topp og styrkja um leið brunnagerð í Malaví.

Myndband um samstarfsverkefni Rauða krossins og Vífilfells