Án sjálfboðaliða væri ekkert hjálparstarf

25. okt. 2011

„Hjá félaginu starfa nú um 30 þúsund sjálfboðaliðar,“ segir Charles Makhuyula sem er verkefnisstjóri fyrir sjálfboðaliðastarf hjá malavíska Rauða krossinum. Þar eins og annars staðar í heiminum byggist starf Rauða krossins á sjálfboðaliðum.

„Verkefni sjálfboðaliðanna eru margvísleg,“ segir Charles. „Þeir veita skyndihjálp og fræða fólk um heilsuvernd, þeir taka þátt í forvörnum gegn alnæmi og sjálfboðaliðarnir okkar vinna einnig að neyðarvörnum og neyðaraðstoð. Margir sýna Rauða krossinum mikla hollustu og án þeirra væri ekkert hjálparstarf.“

Charles segir að margir sjálfboðaliðanna séu mjög fátækir og fái þess vegna umbun fyrir störf sín, t.d. máltíð eða önnur hlunnindi. Rauði krossinn eigi í harðnandi samkeppni við önnur félagasamtök sem hafi tök á að umbuna sjálfboðaliðum betur.

Nýlega var gerð áætlun um hvernig efla megi starf sjálfboðaliða á vegum malavíska Rauða krossins. Nú er t.d. verið að koma upp sjálfboðaliðaskrá svo að hægt sé að sjá hvaða þjálfun og reynslu hver og einn sjálfboðaliði býr yfir.