Rauði krossinn hyllir tombólubörnin á alþjóðadegi sjálfboðaliðans

5. des. 2007

Alþjóðadagur sjálfboðaliðans er haldinn hátíðlegur um allan heim þann 5. desember. Að því tilefni vill Rauði krossinn sérstaklega þakka tombólubörnunum, sem eru yngstu sjálfboðaliðar félagsins, fyrir stuðninginn á árinu.

Rúmlega 300 börn um allt land stóðu fyrir tombólum til styrktar starfi Rauða krossins á árinu og söfnuðu alls um 500.000 kr. Framlag tombólubarnanna rennur alltaf til ungmenna- og barnastarfs Rauða krossins víða um heim, og að þessu sinni verða peningarnir notaðir til að hjálpa börnum í Malaví í suðurhluta Afríku.

Rauði kross Íslands hefur unnið að alnæmisverkefnum í samstarfi við Rauða krossinn í Malaví frá árinu 2002. Tugþúsundir barna í Malaví hafa misst foreldra sína úr alnæmi, og eiga því um sárt að binda. Í bænum Nkalo í suðurhluta  landsins eru rúmlega 4.000 börn sem Rauði kross Íslands hjálpar á ýmsan hátt svo þau geti haldið áfram í skóla. Byggð hafa verið þrjú athvörf og verða peningar tombólubarnanna notaðir til að kaupa borð og stóla, leikföng og skóladót.

Árið 1985 tilnefndu Sameinuðu þjóðirnar 5. desember alþjóðlegan dag sjálfboðaliða. Tilgangurinn var sá að vekja athygli á framlagi sjálfboðaliða til samfélagsins. Rauði krossinn er stærsta sjálfboðahreyfing í heimi með um 20 milljónir sjálfboðaliða. Innan Rauða kross Íslands starfa um 2.000 sjálfboðaliðar.

Rauði krossinn fagnar þeirri miklu vakningu sem hefur orðið um gildi sjálfboðins starfs á undanförnum misserum sem hefur lýst sér í auknum áhuga almennings við að taka þátt í verkefnum félagsins. Rúmlega 600 manns hafa gengið til liðs við Rauða krossins það sem af er þessa árs, miðað við 217 allt árið 2006.

Rauði kross Íslands vill nýta tækifærið til að óska öllum þeim sem unnið hafa unnið sjálfboðið starf í þágu félagsins á árinu til hamingju með daginn.