Mikilvæg þjónusta fyrir fátæk börn – Svipmynd frá Malaví

22. des. 2011

Klukkan er rúmlega sjö að morgni, sólin skín en enn er ekki orðið mjög heitt. Við erum stödd í litlu þorpi í suðurhluta Malaví sem heitir Ntope.

Úr öllum áttum drífur að fólk með smábörn sér við hlið eða í fanginu. Hinir fullorðnu og smáfólkið leggja leið sína að reisulegu húsi í útjaðri þorpsins þar sem sjálfboðaliðar Rauða krossins taka á móti börnunum. Í þessu húsi er forskóli á vegum Rauða krossins fyrir börn sem þjást vegna fátæktar og alnæmis.

„Hér fá 135 börn afar mikilvæga þjónustu á degi hverjum ,“ segir Alfred Muha sem stjórnar þessu starfi. „Börnin fá maísgraut og síðan er farið í leiki, þau fá fræðslu og einnig heilsuvernd“.  Auðheyrt er á Alfred að hann er stoltur af forskólastarfinu í Ntope.

Rauði kross Íslands styður ýmiss konar þjónustu sem komið hefur verið á fót vegna alnæmisvandans í Malaví – og þar á meðal eru sjö forskólar í suðurhluta landsins.  Framlög frá tombólubörnum voru notuð til að kaupa rólur, vegasölt og rennibrautir sem sett voru upp við skólana.

Krakkarnir leika sér í rólunni sem tombólubörn á Íslandi gáfu þeim.