Sjálfboðaliðar úr óvæntri átt

16. jan. 2012

Rauði kross Íslands vinnur með sjálfboðaliðum Rauða krossins í Malaví að baráttu gegn alnæmisfaraldrinum sem ógnar lífi milljóna manna í sunnanverðri Afríku. Fræðsla um smitleiðir alnæmis er stór þáttur í viðleitni til að stöðva faraldurinn. Hún hefur þegar borið þann árangur að alnæmissmituðum hefur fækkað í Malaví, en betur má ef duga skal.

„Starfsfólk Rauða krossins hefur alltaf tekið okkur vel og sýnt okkur virðingu,“ segja þær Loreta Simbeyi og Hanna Nyanga einum rómi. Þær leiða hóp 25 kvenna í Mwanza í suðurhluta Malaví sem vinna í sjálfboðastarfi við að koma í veg fyrir  útbreiðslu alnæmis.

Við fyrstu sýn mætti ætla að starf þeirra væri ekki í frásögur færandi því  sjálfboðaliðar Rauða krossins um allan heim vinna að forvörnum gegn alnæmi. En þær Loreta og Hanna stunda vændi til að framfleyta sér eins og reyndar allar konurnar í þeirra sjálfboðaliðahópi.

„Við höfum frætt aðrar konur sem stunda vændi um hvernig verjast má alnæmissmiti,“ segir Hanna. Í hópnum þeirra eru nánast allar konurnar smitaðar – aðeins tvær þeirra hafa sloppið. „Við dreifum líka smokkum. Og við reynum að ná tali af vörubílstjórunum sem fara hér í gegn á leiðinni til Mósambík til að láta þá vita um mikilvægi smokksins,“ bætir hún við.

Vændi er ólöglegt í Malaví eins og víðast hvar í heiminum. Rauða krossinum hefur samt tekist að styðja sjálfboðaliðahóp kvennanna án þess að lenda upp á kant við stjórnvöld.

Konurnar hafa fengið fræðslu og þjálfun til að vinna að forvörnum og sem umbun fyrir sjálfboðastörfin hafa þær fengið landbúnaðarverkfæri og áburð frá Rauða krossinum. Þær yrkja einnig jörðina – í fátæku landi þarf fátækt fólk að beita öllum tiltækum ráðum til að komast af.