Rauði krossinn styður jafningjafræðslu í Malaví

28. maí 2009

Frá árinu 2002 hefur Rauði kross Íslands veitt Rauða krossinum í Malaví fjárhagslega og tæknilega aðstoð vegna alnæmisverkefnis í Nkalo í Chiradzulu héraði í suðurhluta landsins. Verkefninu er ætlað að ná til 42.000 manns og hluti þess felst í jafningjafræðslu meðal ungmenna á svæðinu. Vonast er til að þessi þáttur starfsins geti dregið verulega úr útbreiðslu alnæmis í héraðinu.

„Markmið jafningjafræðslunnar er að veita ungu fólki fræðslu um kynheilbrigði og lífsleikni. Þetta er eitt af því mikilvægasta sem við getum gert til að hjálpa ungmennum að verjast alnæmissmiti,” segir Hólmfríður Garðarsdóttir heilbrigðisráðgjafi Rauða kross Íslands í Malaví. „Fræðslan fer þannig fram að ungir sjálfboðaliðar kenna jafnöldrum sínum í smáum hópum með svipaðan bakgrunn og áhugamál. Oft fer þetta starf fram í skólum eða í tengslum við ýmsa viðburði þar sem ungmenni hittast.”

Hólmfríður hefur verið í Malaví á vegum Rauða kross Íslands frá því í október 2008. Hún veitir einnig ráðgjöf um tilhögun samstarfsverkefna Rauða kross Íslands í Mósambík og Suður-Afríku.

Fátækt og alnæmi valda miklum samfélagsvanda
Í Chiradzulu búa alls um 290.000 manns. Nánast allt land í þessu þéttbýla héraði er notað til ræktunar en þó hefur mikill meirihluti íbúa minna en hálfan hektara til eign umráða. Margir hafa jafnframt takmarkaðan aðgang að vatni.

„Rúmlega 90% af íbúum Chiradzulu búa við sárustu fátækt sem jafngildir því að þeir hafi minna en 100 krónur á dag sér til lífsviðurværis,” segir Hólmfríður. „Líkt og annars staðar í sunnanverðri Afríku er alnæmi mikið vandamál. Talið er að 15.1% af íbúum Chiradzulu héraði séu sýktir af veirunni. Fjöldi munaðarlausra barna hefur vaxið á undanförnum árum og rúmlega 40.000 börn í héraðinu hafa misst annað hvort eða bæði foreldri, oftast vegna alnæmis.”

Alnæmissmit er mest meðal ungra stúlkna
Mest áhersla er lögð á að ná til pilta og stúlkna á aldrinum 10-24 ára, bæði skólakrakka og annarra ungmenna. Talið er að helmingur þeirra sem smitast af alnæmi í sunnanverðri Afríku séu yngri en 24 ára, mest ungar stúlkur. Það er því mjög mikilvægt að ná til unga fólksins til að hafa áhrif á afstöðu þeirra. Með því að breyta hegðun þessa hóps standa miklar vonir til þess að hægt sé að draga verulega úr nýju alnæmissmiti í héraðinu.

Unglingar hafa bæði góð og slæm áhrif á hegðun félaga sinna. Með skipulagðri jafningjafræðslu getum við hins vegar séð til þess að upplýsingarnar sem þau gefa hvert öðru hafi fyrst og fremst jákvæð áhrif,“ segir Hólmfríður. „Ungt fólk leitar mikið til félaga sinna til að fræðast um kynlíf og önnur viðkvæm málefni. Notað er mjög vandað kennsluefni í fræðslustarfinu. Þátttakendur læra meðal annars um kynferði, kynlíf, tjáskipti, lífsleikni, getnaðarvarnir, unglingsþunganir, alnæmi, þroskaferil ungmenna, misnotkun vímuefna og kynbundið ofbeldi. Að fræðslunni lokinni fá ungmennin handbók um jafningjafræðslu með leiðbeiningum, myndum og hugmyndum að leikjum sem hægt er að nota í áframhaldandi fræðslustarfi.“

Kátir strákar í nýjum skóm frá Íslandi. Þessir ungu piltar tóku allir þátt í jafningjafræðslunni í Chiradzulu. Á síðasta ári veitti Rauði kross Íslands stuðning sinn til að þjálfa 62 stelpur og 37 strákar í Chiradzulu til að veita jafningjafræðslu. Þessi ungmenni vinna nú mjög verðmætt fræðslustarf og eru grunnurinn að vaxandi neti ungmenna sem veita hvert öðru lífsnauðsynlegar upplýsingar.
Hressir strákar taka við fótbolta frá Íslandi. Ungmennin taka þátt í skipulagi íþróttadaga Rauða krossins í Malaví og nýlega fengu þau fótbolta, boli og skó frá Rauða krossi Íslands til að nota við þetta tækifæri. sem kom sér vel á íþróttadögunum.
Jonah yfirmaður alnæmisverkefnis Malvíska Rauða krossins í Chiradzulu og Togo ritari félagsins. Ýmsar menningarlegar hefðir í héraðinu hafa áhrif á útbreiðslu alnæmis. Rauði krossinn í Malaví á náið samstarf við forystumenn úr samfélaginu í Nkalo um að koma í veg fyrir neikvæðar afleiðingar þessara hefða.
Þessi einbeittu krakkar máta skó í skódreifingu Rauða kross Íslands í Chiradzulu í nóvember 2008.