Tombóluframlag íslenskra barna til hjálpar börnum í Malaví

10. sep. 2009

Tombólubörn Rauða krossins geta verið stolt af starfi sínu á árinu 2008. Börnin söfnuðu um  600.000 krónum til hjálpar börnum í forskólum í Chiradzulu og Mwanza héraði í suður-Malaví. Þar hefur Rauði kross Íslands stutt við alnæmisverkefni malavíska Rauða krossins undanfarin ár. Hólmfríður Garðarsdóttir sendifulltrúi starfar í Malaví.

Í Chiradzulu héraði eru þrír forskólar sem njóta stuðnings Rauða krossins. Það var einlæg ósk umönnunaraðila í skólunum að fá fleiri útileiktæki fyrir börnin. Var því ákveðið að hluti af framlagi tombólubarna yrði varið til kaupa á rólum, vegasalti, hringekju og rennibraut.

Í Mwanza héraði styður malavíski Rauði krossinn fjóra forskóla. Umönnunaraðilar þar og sjálfboðaliðar Rauða krossins óskuðu einnig eftir að nýta framlag tombólubarna á Íslandi til að kaupa timbur í vegasölt og rennibrautir, reipi í rólur, stóla, hillur og efni til að búa til tuskudúkkur fyrir börnin. Öll eru leiktækin framleidd í héruðunum.

Hólmfríður heimsótti einn af þessum forskólum nýlega og þar ríkti mikil ánægja með útileiktækin. Mikið fjör upphófst þegar sextíu börn komu út að leika sér undir handleiðslu sex umsjónaraðila.

Forskólarnir eru reknir af foreldrum, umönnunaraðilum munaðarlausra barna, sjálfboðaliðum malavíska Rauða krossins og öðrum einstaklingum í samfélaginu. Starfið í skólunum miðar að því að hjálpa börnum á aldrinum tveggja til fimm ára að þroskast og dafna. Þar er er þeim séð fyrir öruggu og örvandi umhverfi þar sem börnin læra og þroskast með leikjum og samveru við jafnaldra sína. Um leið eru börnin búin undir það að byrja í skóla.

Umönnunaraðilar barnanna í skólunum sækja námskeið sem skipulögð eru af malavíska Rauða krossinum og yfirvöldum þar sem fjallað er um vöxt og þroska barna. Foreldrar barnanna fá einnig fræðslu. Lögð er áhersla á gott samstarf við heilbrigðisyfirvöld og heilbrigðisstarfsmenn koma reglulega til að meta þroska og næringarástand barnannar. Um leið fá umönnunaraðilar fræðslu og ráðleggingar. Heilsugæsla er takmörkuð í sveitum Malaví en með þessu verkefni fá börnin aðgang að þeirri heilbrigðisþjónustu sem þau þurfa á að halda.

Fá önnur úrræði á sviði barnagæslu bjóðast í þeim strjálbýlu héruðum þar sem Rauði krissinn starfar og því er þessi þjónusta mjög mikilvæb fyrir börnin.. Við alla skólana er garður þar sem ræktaður er maís og grænmeti sem notað er í máltíðum skólanna.Umönnunaraðilar skólans sjá um garðinn sjálfir.