Fréttir vegna neyðarvarna

JBG

6. des. 2005

Það helsta sem er að frétta úr neyðarvörnum Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu er að neyðarnefndin var sett í viðbragðsstöðu síðastliðinn sunnudag vegna kanadískrar farþegaþotu sem þurfti að lenda á Keflavíkurflugvelli á einum hreyfli. Útkallið var afboðað tæpum klukkutíma síðar.

Laugardaginn 14. janúar 2006 verður haldin fjöldahjálparæfing í Fellaskóla. Ég hef þegar hafið undirbúning að henni með því að safna ,,leikurum" og fólki sem mun koma að skipulagningu hennar. Þið munuð koma til með að fá útkall með sms-boðum, hvort sem þið ætlið ykkur að taka þátt í æfingunni eða ekki. Ef þið munuð ekki sjá ykkur fært að mæta væri gott að fá fregnir af því. Boðið verður til fræðslukvölds í vikunni fyrir æfinguna. Ef þið vitið um einhverja sem vilja hugsanlega taka þátt sem flóttafólk þá væru ábendingar um slíkt vel þegnar.

Í byrjun febrúar á næsta ári verður stofnaður viðbragðshópur á höfuðborgarsvæðinu sem ætlað er að sinna neyðaraðstoð utan almannavarnaástands, s.s. vegna bruna í íbúðarhúsum. Námskeið þar af lútandi verður auglýst síðar en þegar hafa nokkrir haft samband við mig og boðið sig fram í starf af þessu tagi. Neyðarnefndin er búin að panta yfirbyggða kerru frá Danmörku sem í verður geymt allt það helsta sem þarf til að opna litla fjöldahjálparstöð og mun einnig nýtast þessum hópi.

Dagana 25.-26. mars verður almannavarnaæfingin Bergrisinn haldin á Suðurlandi. Gert er ráð fyrir að fólk héðan af svæðinu muni aðstoða Rauða kross deildirnar fyrir austan við ,,hjálparstarfið".

4. og 5. apríl verður fjöldahjálparstjóranámskeið haldið hér á höfuðborgarsvæðinu.

Auk alls þessa hefur neyðarnefnd höfuðborgarsvæðisins ákveðið að halda 2-3 fjöldahjálparæfingar í viðbót á næsta ári sem verða heldur smærri í sniðum en sú sem verður 14. janúar, þá væntanlega í formi skrifborðsæfinga.