Fjölsmiðjan heldur uppá fimm ára afmæli

16. mar. 2006

Fjölsmiðjan, vinnusetur fyrir ungt fólk, fagnaði því í gær að fimm ár eru liðin síðan starfsemin hófst. Fjölsmiðjan er ætluð 16-24 ára ungmennum sem af einhverjum ástæðum hafa ekki náð að fóta sig á vinnumarkaði eða í skólakerfinu. Ætlunin er að þau fái þjálfun á þeim sviðum er hæfileikar og áhugi þeirra liggja.

Frá því starfsemin hófst hefur hún stækkað og þróast. Nú eru um 50 krakkar í þjálfun í einu í sjö deildum sem eru trésmíðadeild, bíladeild, hússtjórnardeild, pökkun, skrifstofu- og tölvudeild, rafmagnsdeild auk kennslu. Framundan er að stofna sjávarútvegsdeild þar sem stefnt er að því að gera út 150 tonna bát.

Á þessum fimm árum hafa um 260 unglingar fengið þjálfun og um 80% hafa fengið lausn sinna mála. Þau eru nú annað hvort í skóla eða úti á vinnumarkaðnum.

?Rauði krossinn lagði upphaflega í verkefnið til þriggja ára, sem tilraunaverkefni,? segir Þorbjörn Jensson sem verið hefur forstöðumaður Fjölsmiðjunnar frá byrjun. ?Það var ekki vitað, þótti ekki ljóst, hvort þörfin væri til staðar og hvort hópurinn væri til. Það er, þeim sem detta úr skóla, grunnskóla eða framhaldsskóla og þurfa kannski á nýjum upphafsreit að halda, hvort sem er til að halda áfram námi eða safna reynslu til að komast á vinnumarkaðinn. Nú og þriðji hópurinn eru síðan þeir krakkar sem lent hafa í neyslu og þurfa að ná sér út úr henni.?

Hugmyndin að Fjölsmiðjunni kom frá Danmörku þar sem vinnusetur af þessum toga hafa verið til staðar í 25 ár. Fyrstu þrjú ár voru hugsuð sem tilraunaverkefni en því svo haldið áfram vegna þess hve frábærlega vel tókst til og þörfin reyndist svo sannarlega vera til staðar.

Rekstraraðilar starfseminnar eru félagsmálaráðuneytið, vinnumálastofnun, Rauði kross Íslands, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, en menntamálaráðuneytið kemur inn með fé til rekstursins.