29. des. 2004 : Umfangsmesta hjálparaðgerð Rauða krossins um áratugaskeið hafin

Hjálparstarf á vegum Rauða krossins er í fullum gangi um alla álfuna, einkum þar sem ástandið er verst, á Sri Lanka, Indlandi, Tælandi og Indónesíu.
Alþjóða Rauði krossinn sendi í morgun út hjálparbeiðni sem er sú stærsta um áratugaskeið en talin er þörf á um 3 milljörðum króna til hjálparstarfs samtakanna á hamfarasvæðunum við Indlandshaf. Rúmlega tíu þúsund manns á Íslandi hafa hringt í söfnunarsímann 907 2020 og þannig stutt hjálparstarf á svæðinu. Ríkisstjórn Íslands, Pokasjóður, deildir Rauða krossins og fyrirtæki hafa stutt hjálparstarfið með framlögum og hafa rúmlega 20 milljónir króna safnast síðustu daga.

Á vegum Rauða krossins er verið að leita að ástvinum Íslendinga á flóðasvæðunum í gegnum leitarþjónustu Alþjóða Rauða krossins. Fólk sem er áhyggjufullt vegna ástvina sinna á flóðasvæðum getur nú leitað þeirra á netinu, á leitarsíðu Alþjóða Rauða krossins, www.familylinks.icrc.org. Þar getur fólk á flóðasvæðunum skráð sig og ættingjar og vinir geta sömuleiðis skráð að þeir séu að leita að viðkomandi. Einnig er hægt að hringja í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 eða hafa samband við Rauða kross deildir í hverju byggðarlagi.