27. okt. 2005 : Mörg þúsund fórnarlamba jarðskjálftanna í Pakistan gætu dáið úr vosbúð

Það er erfitt fyrir börn að skilja hvað lífið getur breyst á örskotsstundu.
Mörg þúsund fórnarlamba jarðskjálftanna í Pakistan gætu dáið ef þeir sem veikastir eru fyrir fá ekki nauðsynlega hjálp fyrir veturinn, segir í frétt frá Alþjóða Rauða krossinum. Kallað er eftir langtíma fjárframlögum til að gera aðstoðina mögulega.

Talið er að það þurfi allt að átta milljarða króna til að aðstoða Rauða hálfmánann í Pakistan við að veita hjálp á þeim svæðum sem verstu urðu úti, einkum þeim afskektustu. Aðeins tæplega þriðjungur þessarar upphæðar hefur skilað sér en von er á meiru fljótlega. Meira fjármagn er hins vegar bráðnauðsynlegt ef hjálpin á að bera árangur til lengri tíma litið, að því er fram kemur í máli Juan Manuel Suárez del Toro forseta Alþjóða Rauða krossins.

26. okt. 2005 : Dagbók hörmunga

Raza vinnur við hjálparstarfið í Pakistan og heldur dagbók.

26. okt. 2005 : Læknisaðstoð í hjarta neyðarinnar

Spítali Rauða krossins í Muzaffarabad.
Mynd: Alþjóða Rauði krossinn / Jón Björgvinsson
Alþjóða Rauði krossinn hefur nú sett upp spítala sem rúmar 100 manns í Muzaffarabad, Kasmírhéraði í Pakistan. Spítalinn samanstendur af 30 tjöldum og er staðsettur á krikket-velli í miðbæ Muzaffarabad en þar starfa Finnar og Norðmenn eins og er.

?Fólkinu er sinnt hér á staðnum enda gefur staðsetning spítalans fjölskyldum kost á að vera saman. Það hefur reynst mjög erfitt fyrir foreldra að láta börnin sín í læknishendur í Islamabad ef þeir þurfa svo sjálfir að vera eftir í Muzaffarabad,? segir Jón Björgvinsson sem vinnur með Alþjóða Rauða krossinum í Muzaffarabad. ?Á spítalanum geta meðal annars farið fram röntgen-myndatökur og skurðlækningar.?

21. okt. 2005 : Þjáningar í Shamlai

Saga um þjáningar fólksins í þorpinu Shamlai í Pakistan.

21. okt. 2005 : Rauði krossinn veitir 20 milljónum króna úr neyðarsjóði til Pakistans

Stjórn Rauða kross Íslands ákvað í dag að veita 20 milljónum króna úr neyðarsjóði félagsins til hjálparstarfsins eftir jarðskjálftana í Pakistan. Nú stefnir í að manntjón af kulda og vosbúð verði engu minna en í sjálfum skjálftanum 8. október.

Hundruð þúsunda manna ? karlar, konur og börn - hafa ekkert skjól og vetur er genginn í garð. Eftir því sem á líður verður næturkuldinn meiri í fjallahéruðum á skjálftasvæðunum í Kasmír.

?Fyrir 20 milljónir króna er hægt að kaupa hlý vetrartjöld fyrir næstum fimm þúsund manns,? segir Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri. ?Rauði krossinn skorar á fjölskyldur að hringja í söfnunarsímann 907 2020 og gefa þannig eitt þúsund krónur.?

21. okt. 2005 : Gríðarleg þörf fyrir læknishjálp

Borgin Balakot varð fyrir gríðarlegum skemmdum í jarðskjálftanum.

20. okt. 2005 : Fjármagn nauðsynlegt til að tryggja að nauðsynleg aðstoð nái til fórnarlamba jarðskjálftanna

Verið að flytja sært fólk frá Muzaffarabad til Islamabad.
Mynd: Alþjóða Rauði krossinn /Jón Björgvinsson. 
Á meðan ástandið á skjálftasvæðunum versnar dag frá degi hefur Alþjóða Rauði krossinn áhyggjur af litlum viðbrögðum við beiðni samtakanna um stuðning við hjálparstarfið í norðurhluta Pakistan, Indlands og Afghanistan. Aðeins hefur náðst að afla 33,7% af þeim 73 milljónum svissneskra franka (um 3,4 milljarðar íslenskra króna).

Þúsundir fórnarlamba búa enn undir berum himni í miklum næturkulda. Sumir eru alvarlega slasaðir og jafnvel með sár sem drep hefur komist í. Aðgangur að hreinu vatni er takmarkaður. Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu Þjóðunum er talið að um 63 þúsund manns séu slasaðir vegna skjálftanna en aðeins 16 þúsund hafa fengið læknisaðstoð. Börn og eldra fólk er í sérstakri hættu vegna ástandsins.

14. okt. 2005 : Rauði krossinn safnar þrettán milljónum króna vegna hamfara í Pakistan

Blóðbanki pakistanska Rauða hálfmánans útvegar blóð til spítala og heilsugæslustöðva.
Almenningur hefur tekið vel í söfnun Rauða kross Íslands vegna hörmungarsvæðanna í Pakistan. Rúmlega 3.000 manns hafa hringt í söfnunarsímann 907 2020 og einnig hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið að leggja fram rúmlega 9 milljónir króna til hjálparstarfs Rauða krossins.

Alþjóða Rauði krossinn hefur nú sent út neyðarbeiðni upp á um 100 milljónir svissneskra franka, eða um fimm milljarða króna, til hjálparstarfsins. Féð verður notað til að aðstoða 150,000 fjölskyldur (750,000 manns), sem voru fórnarlömb jarðskjálftans síðastliðinn laugardag sem náði til norðurhluta Pakistans, Indlands og Afghanistans. Þannig mun Rauði krossinn útvega matvæli, tjöld, teppi, eldurnaráhöld og læknisaðstoð til þeirra sem lifðu jarðskjálftann af og þurfa á aðhlynningu að halda.

11. okt. 2005 : Íslendingar bregðast vel við neyðarkalli frá Pakistan

Kasmírbúar á göngu eftir eyðilögðum götum Sultandaki sem er 80 mílum vestur af Srinager. Reuters/ Danish Ismail, frá www.alertnet.org.
Um 1.500 manns hafa brugðist við neyðarkalli vegna jarðskjálftanna í Pakistan og lagt fram 1.000 krónur hver til hjálparstarfsins með því að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 907 2020. Þannig hefur safnast um ein og hálf milljón króna á þeim sólarhring sem er liðinn síðan söfnunin hófst.

Alþjóða Rauði krossinn hefur einsett sér að aðstoða 50.000 fjölskyldur, eða um 250.000 manns, á næstu fjóru mánuðum. Mikil neyð ríkir á hamfarasvæðinu í fjallahéruðum Pakistans og gífurleg þörf er fyrir matvæli, teppi og skjólefni af ýmsu tagi. Talsverðar birgðir eru á staðnum en það sem ekki er til í vöruhúsum Rauða krossins verður keypt í Pakistan.

10. okt. 2005 : Rauði krossinn safnar til hjálparstarfsins á skjálftasvæðum

Hjálparstarfsmenn flytja birgðir frá tyrkneska Rauða hálfmánanum á hjálparsvæðin í Pakistan. Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans vinnur sameiginlega að hjálparstarfinu. Reuters/Faisal Mahmood, frá www.alertnet.org.

Rauði kross Íslands hefur hafið söfnun til stuðnings fórnarlömbum jarðskjálftans í Pakistan. Þeir sem vilja gefa eitt þúsund krónur til hjálparstarfsins geta hringt í 907 2020. Einnig er hægt að leggja fram fé af greiðslukorti með því að smella hér.

Hjálparsveitir Rauða krossins og Rauða hálfmánans eru við störf á skjálftasvæðinu, bæði í Pakistan og á Indlandi. Aðgerðir Rauða krossins til lengri tíma miða að því að aðstoða 50.000 fjölskyldur, eða um 250.000 manns, til næstu fjögurra mánaða.

Pakistanski Rauði hálfmáninn leiðir hjálparstarfið í Islamabad, þar sem stórhýsi hrundu með skelfilegum afleiðingum.

8. okt. 2005 : Viðbrögð Rauða krossins vegna jarðskjálftanna í Pakistan

Afleiðingar jarðskjálftanna í Pakistan eru skelfilegar. Mynd: Reuters/Mian Kursheed af www.alertnet.org.
Öflugur jarðskjálfti reið yfir Pakistan í morgun. Fyrstu fréttir herma að upptök skjálftans séu 95 km norðaustur af Islamabad. Skjálftans varð vart á stórum svæðum í Pakistan, Indlandi og Afganistan. 

Rauði kross Íslands er í viðbragðstöðu vegna jarðskjálftanna og starfsmenn félagsins eru í sambandi við höfuðstöðvar Alþjóða Rauða krossins í Genf. Rauði kross Íslands er reiðubúinn að veita þá aðstoð sem leitað er eftir en áherslan er á að nota þann mannafla og birgðir sem eru á staðnum.

Ljóst er að hjálparstarfið verður mjög erfitt þar sem víða er um að ræða afskekkt fjallahéruð þar sem vegir eru lélegir. Fé til fyrstu viðbragða Rauða krossins kemur úr neyðarsjóði Alþjóða Rauða krossins sem Rauði kross Íslands hefur lagt áherslu á að styðja með fjárframlögum.