29. maí 2008 : Hjálparstarf Rauða krossins í Mjanmar og Kína mun taka nokkur ár

Viðbrögð við neyðarbeiðnum Alþjóða Rauða krossins í kjölfar hamfaranna í Mjanmar og Kína á liðnum vikum hafa verið sterk. Rauði krossinn væntir þess að neyðarverkefni og uppbyggingarstarf samtakanna í þessum löndum verði að fullu fjármögnuð fyrir framlög landsfélaga Rauða krossins, ríkisstjórna og almennings.

Alþjóða Rauði krossinn sendi út endurskoðaða neyðarbeiðni fyrir Mjanmar sem hljóðar upp á 3,7 milljarða íslenskra króna (51 milljón bandaríkjadollara) til að aðstoða 100.000 fjölskyldur (um 500.000 manns) í þrjú ár. Fyrstu vikur og mánuði er lögð áhersla á að veita nauðstöddum brýna neyðaraðstoð, verja þá gegn útbreiðslu ýmissa sjúkdóma og að koma yfir þá skjólshúsi. Síðan tekur við uppbygging á hamfarasvæðinu.

13. maí 2008 : Neyðarstarf Rauða krossins hafið í Kína og komið vel af stað í Mjanmar

Rauði krossinn í Kína hóf fjáröflun í dag vegna jarðskjálftans sem skók landið í gær og hefur þegar borist sem svarar um 1,3 milljörðum króna.

13. maí 2008 : Myndir frá fellibylnum Mjanmar

Felliylurinn Nargis reið yfir Mjanmar föstudaginn 2. maí. Sjá nánar.

Myndirnar eru frá Alþjóða Rauða krossinum og voru teknar fyrstu dagana eftir fellibylinn.

9. maí 2008 : Hjálpargögn Rauða krossins komin til Mjanmar

Þrátt fyrir erfiðleika við að koma neyðarvarningi til Mjanmar lenti flugvél Rauða krossins hlaðin hjálpargögnum í Yangoon höfuðborg Mjanmar (einnig þekkt sem Rangoon í Búrma) seint í gærkvöldi. Flogið var frá neyðarbirgðastöð Alþjóða Rauða krossins í Kuala Lumpur. Önnur vél með hjálpargögn fylgdi í kjölfarið nú í morgun.
 
Alþjóðlegir sérfræðingar Rauða krossins eru að störfum í Mjanmar, og von er á enn fleiri sendifulltúum til að styrkja Rauða krossinn í neyðaraðgerðunum. Um 27.000 sjálfboðaliðar Rauða krossins í Mjanmar hafa haldið hjálparstarfinu uppi frá því hamfarirnar urðu fyrir einni viku. Sérfræðingar frá systurfélögum Rauða krossins í nágrannaríkjunum sem eru sérþjálfaðir í neyðarviðbrögðum á svæðinu eru þegar komnir til landsins.
 
Utanríkisráðuneytið veitti í gær 7,7 milljónum íslenskra króna í hjálparstarf Alþjóða Rauða krossins á hamfarasvæðunum. Áður hafði 10 milljóna króna framlag frá Rauða krossi Íslands verið sent til hjálparstarfsins, og stendur söfnun Rauða krossins enn yfir.

8. maí 2008 : Rauða kross hreyfingin hyllir sjálfboðaliða í Mjanmar á alþjóðadegi Rauða krossins

Hreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans hefur tileinkað daginn í dag, 8. maí sem er alþjóðlegur dagur Rauða krossins, öllum þeim sjálfboðaliðum sem vinna nú á sólarhringsvöktum við að bjarga nauðstöddum í Mjanmar. Yfir 27.000 sjálfboðaliðar Rauða krossins í Mjanmar hafa unnið sleitulaust síðan fellibylurinn Nargis reið yfir landi fyrir viku.

„Eins og í öllum hamförum sem verða í heiminum, voru sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða krossins fyrstir á vettvang. Þrátt fyrir að margir þeirra séu einnig fórnarlömb fellibylsins, hafa þeir brugðist við til að veita nágrönnum sínum aðstoð sem fyrst,” segir Bridget Gardner, yfirmaður skrifstofu Alþjóða Rauða krossins í Mjanmar.

8. maí 2008 : Söfnun Rauða krossins fyrir nauðstadda í Mjanmar fer vel af stað

Pokasjóður verslunarinnar afhenti Rauða krossi Íslands í dag fimm milljónir króna til hjálparstarfsins í Mjanmar. Þá hefur þegar safnast um ein milljón króna frá almenningi með framlögum í söfnunarsíma Rauða krossins 907 2020 og á bankareikninginn 1151- 26- 12. Þetta er til viðbótar þeim fimm milljónum króna sem Rauði krossinn hefur veitt úr hjálparsjóði sínum í neyðarbeiðni Alþjóða Rauða krossins.

Bjarni Finnson, formaður Pokasjóðsins, áréttaði við afhendingu framlagsins í dag að það væru í raun viðskiptavinir verslunarinnar sem leggðu til fjármagnið til fórnarlamba fellibylsins í Mjanmar þó stjórn sjóðsins tæki ákvörðun um hvaða málefni væri styrkt hverju sinni.

7. maí 2008 : Þúsundir sjálfboðaliða Rauða krossins aðstoða nauðstadda í Mjanmar

Alþjóða Rauði krossinn sendi út í gærkvöldi neyðarbeiðni sem hljóðar upp á 450 milljónir íslenskra króna til stuðnings fórnarlömbum fellibylsins í Mjanmar.

6. maí 2008 : Rauði krossinn veitir 5 milljónir í neyðarhjálp í Mjanmar

Rauði kross Íslands hefur veitt 5 milljónum króna úr hjálparsjóði sínum til neyðaraðstoðar í Mjanmar til handa fórnarlömbum fellibylsins Nargis sem reið yfir landið síðasta föstudag. Rauði krossinn hefur þegar hafið dreifingu á brýnustu nauðsynjum svo sem drykkjarvatni, fatnaði, matvælum, segldúk og hreinlætisvörum.

 

Nú er ljóst að manntjón er enn meira en talið var í fyrstu, og hafa yfirvöld staðfest að yfir 20.000 manns hafi farist í hamförunum og fleiri en 40.000 er saknað. Stjórnvöld í Mjanmar, sem er einnig þekkt sem Búrma, hafa beðið um alþjóðlega aðstoð.

5. maí 2008 : Rauði krossinn aðstoðar fórnarlömb fellibyljarins í Mjanmar

Alþjóða Rauði krossinn hefur veitt um 14,5 milljónum króna (200 þúsund svissneskra franka) til neyðaraðstoðar í Mjanmar vegna fellibyljarins Nargis sem gekk yfir landið á föstudaginn. Fréttir ríkissjónvarpsins í landinu herma að 22 þúsund séu látnir, 40 þúsund saknað og milljónir hafi misst heimili sín. Talið er að 95% heimila í borginni Bogalay séu gjöreyðilögð. Hættuástandi hefur verið lýst yfir í höfuðborginni Yangon, á svæðunum Irrawaddy, Pegu og ríkjunum Karen og Mon.

Alþjóða Rauði krossinn styður Rauða krossinn í Mjanmar í að veita neyðaraðstoð. Fyrsta aðstoð felst í því að útvega hreint vatn, neyðarskýli, fatnað, plast-yfirbreiðslur og hreinlætisvörur fyrir þá sem hafa misst heimili sín.