Hlér Guðjónsson til Gambíu

15. maí 2012

Hlér Guðjónsson, sendifulltrúi Rauða krossins, hefur störf í Afríkulandinu Gambíu í dag, þar sem hann mun næstu þrjár vikurnar greina þörf fyrir mögulega neyðaraðstoð á vegum Rauða kross Íslands í landinu. Um 430.000 manns, þar af 74.000 börn undir fimm ára þjást nú vegna mikils matvælaskorts í Gambíu. Hlér er einn af reyndari sendifulltrúum Rauða kross Íslands og hefur m.a. unnið við stjórn hjálparstarfs í Kína, Sri Lanka og Sunnanverðri Afríku.

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í landinu í kjölfar meiriháttar uppskerubrests á síðustu mánuðum. Alþjóða Rauði krossinn sendi nýlega út neyðarbeiðni vegna Gambíu en matvæli, útsæði og áburð skortir tilfinnanlega í landinu. Þá er mikil þörf á því að tryggja næringu barna undir fimm ára aldri og mæðra sem enn eru með börn sín á brjósti.

Gambía tilheyrir svokölluðu Sahel svæði sunnan Sahara eyðimerkurinnar þar sem mikill matvælaskortur ríkir núna. Auk Gambíu tilheyra löndin Búrkína Fasó, Tsjad, Malí, Máritanía, Níger og Senegal Sahel svæðinu.

Gambía er minnsta land Afríku, rúmir 12.000 ferkílómetrar að stærð og með um 1,7 milljónir íbúa. Landið er eitt af fátækustu löndum heims og er númer 160 af 179 á lífskjaralista Sameinuðu Þjóðanna. Landið umlykur Gambíufljótið á vesturströnd Afríku. Landbúnaður er ein helsta stoð efnhags landsins og meginfæðuuppspretta íbúanna.