Alþjóðaráð Rauða krossins hvetur til daglegs vopnahlés í Sýrlandi

21. feb. 2012

Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) hvetur stjórnvöld í Sýrlandi og alla aðra sem taka þátt í vopnuðum átökum í landinu til að koma á að minnsta kosti tveggja klukkustunda vopnahléi á dag svo koma megi neyðaraðstoð til stríðshrjáðra borgara landsins án tafar.

„Það er nauðsynlegt af mannúðarástæðum að tekin verði ákvörðun um það strax að koma á reglubundnu hléi á bardögum,“ segir Jakob Kellenberger, forseti Alþjóðaráðs Rauða krossins. „Í borginni Homs og á öðrum átakasvæðum hafa heilu fjölskyldurnar verið fastar á heimilum sínum dögum saman og komast ekki út til að útvega sér mat, vatn eða læknisaðstoð.“

„Við höfum verið í sambandi við sýrlensk stjórnvöld og fulltrúa stjórnarandstöðunnar síðustu daga og óskað eftir því að gerð séu hlé á bardögum í að minnsta kosti tvær klukkustundir á hverjum degi, svo starfsfólk Alþjóðaráðsins og sjálfboðaliðar sýrlenska Rauða hálfmánans hafi nægan tíma til að koma neyðaraðstoð til fólks og flytja burt þá sem eru særðir og sjúkir.“

Síðan ellefta febrúar hafa teymi frá sýrlenska Rauða hálfmánanum og Alþjóðaráðinu náð að komast inn í borgirnar Homs, Bludan, Al Zabadani og Madaya rétt fyrir utan höfuðborgina Damaskus til að veita íbúum þeirra nauðsynlega mannúðaraðstoð.

Tímabundin vopnahlé myndu gera þessum teymum kleift að auka aðstoðina til muna og bregðast við lífsnauðsynlegum þörfum íbúa.