Afgangsfötin umbreytast í hjálpargögn í Sómalíu

18. nóv. 2011

Fadma Abdullah var himinlifandi með hjálpargögnin, enda hefur níu manna fjölskylda hennar sofið undir berum himni síðustu sjö sólarhringana. Plastdúkurinn gerir þeim kleift að koma sér upp litlum kofa.


Í hrjóstrugum hæðum í norðaustanverðri Afríku umbreytast afgangsföt almenings á Íslandi í hjálpargögn fyrir heimilislausa sómalska flóttamenn.  

Í síðmorgunsólinni stafla ungir sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans varningi í snyrtilegar stæður. Konur í litríkum sjölum safnast saman í grendinni. Í hæðunum í grennd má sjá sómalska kofa, kúpt smáhýsi sem haldið er uppi með sprekum og klædd með pappa, plasti og jafnvel þunnum teppum.

Kliður berst frá mannfjöldanum. Fulltrúi félagsmálaskrifstofu forseta Somalilands, ráðherra menntamála, og fulltrúi flóttamannanna fá sér sæti aftan við hljóðnema sem er tengdur við gjallarhorn. Þarna eru líka fulltrúar Rauða hálfmánans í Sómalilandi og undirritaður, fulltrúi Rauða kross Íslands.

Hér er að hefjast dreifing hjálpargagna til fólks sem hefur flosnað upp af heimilum sínum og er nú á vergangi, flóttamenn í eigin landi. Nýja heimili þess er skrjáfþurrar hlíðar á hásléttunni fyrir utan Hargeysa, höfuðborg Sómalilands.

En þó að fólkið sé spennt fyrir varningnum þá þarf líka að sinna formlegheitunum. Ræður eru haldnar og almenningi á Íslandi þakkað fyrir stuðninginn. Fulltrúi Rauða krossins á Íslandi þakkar sömuleiðis fyrir góða skipulagningu dreifingarinnar og fyrirmyndarsamvinnu Rauða hálfmánans og stjórnvalda.

Hver og einn sem á rétt á aðstoð hefur fengið afrit af skráningarblaði sem síðan er borið saman við lista Rauða hálfmánans. Kvittað er fyrir með rauðu fingrafari.

Það léttir starf sjálfboðaliða Rauða hálfmánans að dreift er til allra þeirra 390 flóttafjölskyldna sem hafa verið fluttar upp í hæðirnar á undanförnum vikum. Spennan er meiri þegar ekki er nóg fyrir alla og velja þarf úr þá sem hafa mesta þörf þegar allir hafa þörf.

Fadma Abdullah, sem stendur við einn staflann, er himinlifandi með vörurnar, sérstaklega plastdúkana, 4 x 6 metra breiður.

„Við hjónin erum með fimm börn og við höfum sofið úti í sjö sólarhringa, síðan við komum hingað frá Hargeysa," segir hún. Þar var hún með fjölskyldunni á lóð sem þurfti að rýma fyrir byggingu spítala.

Nú geta þau notað plastið til að klæða kofa sem veitir skjól fyrir brennandi sólinni og rigningunni, sem kemur allt of stopult. Í staflanum eru líka plastbrúsi og fata undir vatn, tvö teppi, ýmsar hreinlætisvörur og pottasett með matardiskum og hnífapörum.

Smám saman hverfa staflarnir og fólk arkar upp í hlíðarnar með varninginn. Dreifingin í Hargeysa er ein af sex afhendingum í Sómalilandi á hjálpargögnum, sem voru keypt fyrir framlag frá Íslandi.

Uppi í nálægri hæð hittum við fyrir Hindu Muse og mann hennar Ahmed Mohammoud. Þau hafa verið þarna í 23 daga með þremur börnum og foreldrum sínum í litlum kofa.

„Kofinn lekur þegar rignir, svo plastdúkarnir koma sér vel, en pottarnir okkar eru líka orðnir gamlir og lélegir," segir Handu.

Hjálparstarf Rauða kross Íslands í Sómalíu er tvíþætt. Framlög almennings voru notuð til að kaupa bætiefnaríkt hnetusmjör, sem er gefið alvarlega vannærðum börnum í sunnanverðri Sómalíu.

Ekki er hægt að fylgjast með því starfi af öryggisástæðum. Vestrænir hjálparstarfsmenn sem hafa hætt sér inn á verstu hungursvæðin hafa verið drepnir eða þeim rænt. En starfið fer samt fram og reyndar er Rauði krossinn ein af fáum hjálparstofnunum sem skæruliðar leyfa að athafna sig.

Alls er búið að dreifa matvælum til einnar milljónar manna í sunnanverðri Sómalíu. Þeirra á meðal eru 20.000 börn sem njóta góðs af vítamínríka hnetusmjörinu sem keypt var fyrir framlög almennings á Íslandi.

Hjálpargögnin sem verið er að dreifa til flóttamanna í norðanverðu landinu - meðal annars í Sómalilandi - voru keypt fyrir framlag Fatasöfnunar Rauða krossins.